Er íslensku þjóðinni þrátt fyrir allt borgið?
Þórólfur Vigfússon fæddist á bænum Kirkjubóli í Vaðlavík árið 1932. Hann fluttist 1963 til Eskifjarðar og hefur búið á Reyðarfirði frá árinu 1968. Þórólfur er draumspakur og tekur drauma alvarlega. Hann hefur til dæmis dreymt fyrir forsetakjöri. Draum þann er hér fer á eftir dreymdi Þórólf aðfararnótt 2. ágúst 2008.
Er íslensku þjóðinni borgið þrátt fyrir allt?
Draumur Þórólfs Vigfússonar úr Vaðlavík
,,Sviðið er dæmigerð vík eða fjörður á Austurlandi og ekki langt á milli fjalla. Ég er á gangi á ókunnum stað að næturlagi. Dimmt er yfir og alskýjað, skýin dökk og þung. Þó er ekki dimmt til jarðarinnar heldur vel farljóst. Ég hef skynjun á öllum útlínum og fjöllum. Geng í átt til sjávar og sé sjóinn skáhallt á hægri hönd. Ég sé framundan hjalla, sem gengur í höfða úti við sjóinn og endar í þverhníptu standbergi. Framundan því er fremur stutt en brött fjara og ég hugsa mér strax að fara þessa leið, því fært muni fyrir höfðann. Í því sé ég að skip liggur beint framundan höfðanum. Ég sé að þetta er langskip líkt og voru í fornöld, þó án drekahöfuðs í stafni. Engin segl eru uppi. Það er alsett skjöldum á borðstokknum. Þeir eru þó ekki skaraðir á misvíxl eins og gjarnan má sjá á uppdráttum af þess háttar skipum, heldur mætast þeir hver við annan. Og allir eru þeir líkt og úr gulli og skært ljós á bak við þá. Birtu slær einnig á stjórnborðskinnunginn, sem snýr að mér og myndar stóran birtusveig út frá skipinu. Á það slær gylltum bjarma. Af því að dimmt er uppi yfir varpast birtan niður á sjóinn. Sjólag er alveg stillt.
Skipið glatað
Ég hef stefnuna á skipið og nálgast það. Ég á þó nokkuð eftir að komast alveg niður á ströndina. Í því sé ég að allt í einu kemur stór bylgja æðandi utan af hafi á miklum hraða. Hún brotnar þó ekki, heldur hrífur skipið með sér og hendir því upp að klettinum. Skipið skellur þó ekki í berginu, en fast að því. Við frákastið og útsogið skellur það niður í fjöruna. Afturendinn kastast út í sjóinn, en framendinn hangir uppi í marbakkanum, sem virðist mjög brattur, því framstefnið vísar svo mikið upp. Þá sé ég að skipið muni vera glatað enda afturhlutinn alveg á kafi. Einhvern veginn hugsa ég ekki um hvort menn muni vera í háska enda sá ég enga menn. Ég held enn stefnu á skipið og sé þá að aðeins eru tveir skildir eftir á stjórnborðskinnungnum sem upp úr stendur. Á þá bregður enn nokkrum ljósbjarma.
Þegar ég nálgast skipið meira sé ég hvar allt í einu kemur önnur holskefla æðandi inn og byrjar að brotna þegar hún kemur að skipinu. Hún brotnar svo á því, hvolfist yfir það og færir á kaf. Það virðist þó sem síðari holskeflan komi aðeins úr annarri átt en hin fyrri, líkt og hún komi með landinu fremur en beint utan af hafi. Þessi ríður yfir skipið, kaffærir það og rífur með sér og það hverfur í brimlöðrið. Þegar skipið er horfið í löðrið hugsa ég með mér að þessi leið sé ekki fær og útilokað að ég komist fyrir höfðann. Ég sveigi því upp á hann og finnst ég vera fljótur í förum. Ég vil sjá hvað er handan höfðans og nú er farið að birta yfir. Ég tel að skipið hljóti að vera glatað.
En það fyrsta sem ég sé þegar upp er komið er skipið, rétt framundan höfðanum. Það flýtur og ekki er dropi af sjó í því. Skildir eru horfnir og allur glans sem utan á því var áður er farinn af. Skipið er með viðarlitum, eða líkt og bikað. Ég sé langs eftir því og snýr skipið skutnum að mér og framstefnið frá. Enn er smálöður hægra megin, en vinstra megin eins og heiðartjörn eða spegill og ákaflega fallegur blær á sjónum.
Sterkbyggt og flýtur
Það síðasta sem ég skoða er byggingin á skipinu. Það er af því allur farviður, eins og árar, þiljur og seglabúnaður. Engu stýri tek ég eftir heldur.Ég sé beint niður í kjölinn. Það undrast ég mest að þar er enginn sjór. Mér finnst skipið sérstaklega sterkbyggt, þétt bönd í því og aðeins um fet milli þeirra og þau mjög sterkleg að sjá eins og skipið allt. Ég festi augun á og þykir fallegt að fremst í skipinu, framundir það sem kallað er stafnseta og er fremst frammi í stafninum, er svo falleg útbúið eins og sæti. Þetta var sérstaklega fallegt og úr góðu efni. Þetta var það eins sem mér þótti prýða skipið þegar þarna var komið sögu. Að öðru leyti var það skrauti rúið. Setið virkaði nýlegra en skipið og gert úr ljósara efni en aðrir skipsviðir. Við svo búið lauk draumnum.“
(Birtist í Austurglugganum 26. febrúar 2009)