![](/images/stories/news/folk/Kristófer_Páll_Viðarsson.jpg)
„Er virkilega góður í að tala frönsku“ – Kristófer Páll í yfirheyrslu
Með ótrúlegum sigri sínum á HK í lokaleik sumarsins náði Leiknir frá Fáskrúðsfirði að halda sér uppi í fyrstu deild karla í knattspyrnu. Af sjö mörkum Leiknismanna gegn tveimur frá HK, skoraði Kristófer Páll Viðarsson fjögur, en hann var fús að mæta í yfirheyrslu vikunnar hjá Austurfrétt.
Kristófer Páll hefur æft fótbolta frá átta ára aldri og segir hann þá iðkun enn vera hápunkt hvers dags. Hann hefur spilað með meistaraflokki Leiknis í fjögur ár.
„Sumarið í boltanum var ótrúlegt, Leiknir frá Fáskrúðsfirði í Inkasso deildinni! Mér gekk rosalega vel heilt yfir i sumar, skoraði tíu mörk og lagði upp sjö.
Það skipti okkur máli að halda okkur í deildinni, en það eru margir uppaldir heimaleikmenn sem eru alltof góðir til að fara niður í 2 .deildina, en þeir hefðu líklega farið ef við hefðum fallið.
7-2 leikurinn gegn HK er skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað, þetta var eins og tölvuleikur. Frá fyrstu mínutu vissi ég að eitthvað ótrúlegt var að fara gerast. reyndar vissi ég það bara þegar ég vaknaði. Ég átti leik lífs míns, mér leið eins og ég gæti gert það sem ég vildi með botann og allt gekk upp. Hausinn var bara á þvi að enginn ætti séns í mann. Eftir leik vorum við allir hlæjandi og grátndi til skiptis, en hann var alveg ótrúlegur og að öllum líkindum upplifir maður aldrei aftur svona leik. Ég er virkilega þakklátur öllum sem að liðinu standa, sérstaklega föður mínum sem hefur verið mjög mikilvægur fyrir mig sem þjálfari liðsins.”
Kristófer Páll segist líklega hafa spilað sinn síðasta leik í bili fyrir Leikni, en hann er samningsbundinn Víking í Reykjavík.
„Það eru spennandi hlutir í gangi hjá mér en ég verð að hafa það fyrir mig sem stendur. Maður veit aldrei sína framtíð í boltanum en ég er mjög bjartsýnn á að ég geti gert góða hluti sama hvar það er. Ég set mér hrein og bein markmið sem ég geri það sem ég get til að ná.”
Fullt nafn: Kristófer Páll Viðarsson.
Aldur: 19 ára.
Starf: Nemi við Menntaskólanum á Egilsstöðum.
Undarlegasti matur sem þú hefur borðað? Ég borða ekki það sem mér finnst undarlegt, er frekar hræddur við þannig mat.
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Ég á mér ekki uppáhalds lög, hlusta bara mikið á „acoustic“.
Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Ég væri til í að geta hlaupið eins hratt og ég vildi. Myndi henta vel í boltann.
Hver er þinn helsti kostur? Ég er hress og kátur.
Hver er þinn helsti ókostur? Á erfitt með að vakna á morgnana.
Hvernig líta kosífötin þín út? Á mér svosem ekkert sérstakt. En ef ég tek latan sunnudag eru það stuttbuxur og bolur.
Hvað bræðir þig? KFC.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? KFC er pottþétt mál!
Syngur þú í sturtu? Nei, reyndar geri ég það aldrei.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna í skólann þar sem ég er til fjögur. Eftir skóla er það rækt svo fótboltaæfing. Leggst yfirleitt uppí rúm fyrir ellefu.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Líklega amma mín sem ég fékk aldrei að hitta, Anna Ragnhildur Viðarsdóttir.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Kurteisi klárlega.
Draumastaður í heiminum? Þar sem mér líður vel.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Í lífinu eru það foreldrar mínir. En í fótboltanum fylgist ég mikið með Coutinho hjá Liverpool og Hazard hjá Chelsea.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Peningar myndi vaxa eins og gras.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Númer eitt er að fara á Anfield og horfa á mína menn hjá Liverpool. Fallhlífarstökk væri rosalegt. Langar einnig mikið líka að sjá Barcelona spila. Þarf samt að fara skoða meira af spennandi hlutum því ég hef aldrei hugsað útí þessa hluti.
Duldir hæfileikar? Er frábær í körfubolta og er virkilega góður í að tala frönsku.
Besta bíómynd allra tíma? Footloose er mjög ofarlega á lista.
Besta mark á ferlinum hingað til? Ég hef skorað fín mörk á ferlinum. En núna á móti HK í síðasta leik tímabilsins skoraði eg rosalega flott mark. Ég fékk boltann úti á vinstri kanti og hljóp framhjá varnarmanni inn á völlinn og af 25 metrum skaut ég í slána og inn alveg uppi við samskeytin. Gleymi þessu marki seint.
Draumalið að spila með? Liverpool er uppáhalds liðið mitt en það er dálítið fjarlægur draumur. Mig langar að komast eitthvað út og spila en ekkk viss hvaða til hvaða liðs mig langar.
Kemst Leiknir í úrvalsdeildina? Ég veit ekki, vonandi gerist það einhvern tíman.