Erfitt fyrir nýliða að hefja smábátaútgerð
Meðalaldur útgerðarmanna smábáta hefur farið hækkandi undanfarin misseri. Formaður félags smábátasjómanna á Norðausturlandi lýsir áhyggjum af skorti á nýliðun í greininni.„Hindranir þeirra sem hugsanlega langar að fara í smábátaútgerð eru orðnar svo miklu meiri en þær voru þegar ég og aðrir kallar vorum að byrja okkar útgerð. Þá þurfti svo lítið sem eitt einasta pungapróf til að fá leyfi til að halda til veiða og það próf mátti lengi vel nánast í næsta Cheerios pakka. Það tók yfirleitt bara nokkra daga að verða sér úti um það og svo bara fylla tankinn og halda í róður.
Í dag er þetta ekki lengur kallað pungapróf, en svipað leyfi nú kostar skólasetu í heilan vetur með nokkuð ærnum kostnaði. Jafnvel sá eða sú sem lætur sig hafa námið á svo eftir að koma sér á bát eða eignast bát í kjölfarið og þeir eru orðnir töluvert dýrari en áður var.
Svo þarf að spyrja sig hvort kaup á nokkurra milljóna króna bát geti mögulega borgað sig þegar vertíðin er aðeins tveir mánuðir á ári hverju og vertíðirnar eru upp og niður eins og gengur. Það dæmi allt er erfitt að láta ganga upp og ekki síst ef fólk er kannski á sama tíma að koma sér upp fjölskyldu,“ segir Oddur Vilhelm Jóhannsson, smábátasjómaður á Vopnafirði og formaður Fonts, félags smábátaeigenda á Norðausturlandi.
Önnur regla sem hefur áhrif er að nú má aðeins eigandi smábáts sjálfur gera út. Á því eru vissulega ýmsar bakdyr, að sögn Odds, sem margir nota en eru ekki til þess fallið að hjálpa mikið.
„Það er einn og annar að gefa eða selja eigendahlut í þessum bransa þannig að einhver ungur fær þá kannski eitt prósent eignarhlut og þá gerir kerfið engar athugasemdir. Á sama tíma standa bátar og safna ryki á bryggjum hér og þar. Þetta mætti vera sveigjanlegra til að unga fólkið komist að.“
Áhuginn lykilatriði
Oddur segir þó hægt að komast inn í bransann ef áhuginn sé sannarlega til staðar, en fyrir nýliða þyrfti viðkomandi helst að vera í fullu öðru starfi þá tíu mánuði ársins sem smábátaveiðarnar eru óheimilar.
„Nema fólk eigi töluverða fjármuni strax í upphafi, sem er nú ekki algengt, þá er ekkert vit í að fjárfesta stórum upphæðum fyrir tveggja mánaða vertíð ár hvert. Það er enginn fyrirsjáanleiki í þessum geira og enginn veit hvort vertíð verður góð eða léleg fyrr en á reynir. Fólk þarf virkilega að hafa áhugann til að taka þetta skref en við smábátasjómenn stöndum saman eins og hægt er og reynum að létta undir eftir getu hjá þeim sem taka stökkið. En slíkir aðilar eru bara svo fáir og það skiljanlega“
Að því sögðu segir hann vissulega tækifæri í greininni ef áhuginn er blússandi mikill. „Sannarlega eru margir vegir færir ef fólk kemst yfir byrjunarörðugleika sem alltaf eru til staðar. Áhuginn er númer eitt, tvö og þrjú og smá vélaþekking getur skipt sköpum og með þetta tvennt er ýmislegt hægt.
Svo er auðvitað hægt að hafa ágætt upp úr þessu þegar vertíðin er góð. Þá geta tekjurnar farið í þrjár til fjórar milljónir sem auðvitað er dágóð summa ef fólk er ekki á kafi í skuldum. Svo er þetta alveg æðislegt líf almennt talað. Við erum úti á góðum tímum og oftast komnir í land snemma morguns og eigum þá allan daginn eftir handa okkur eða fjölskyldunni. Það er til margt verra en slíkt líf.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.