Eyrarrósin afhent á morgun: 700IS tilnefnd
Kvikmyndahátíðin 700IS Hreindýraland er meðal þeirra þriggja verkefna
sem tilnefnd eru til Eyrrarrósarinnar sem afhent verður í sjöunda sinn á
morgun.
Eyrarrósin er samvinnuverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands til viðurkenningar framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Dorrit Moussaieff, forsetafrú, afhendir verðlaunin.
Auk 700is eru Sumartónleikar í Skálholti og Þórbergssetur tilnefnd til verðlaunanna. Í umsögn dómnefndar um 700IS segir:
„700IS Hreindýraland er alþjóðleg kvikmynda- og vídeólistahátíð sem haldin er á Egilsstöðum. Hátíðin var fyrst haldin árið 2006 og stendur yfir í vikutíma í mars ár hvert.
Áhersla er lögð á að sýna tilraunakennda kvikmyndalist og á hátíðin í góðu samstarfi við skóla á Fljótsdalshéraði sem og innlendar og erlendar menningarstofnanir. Virk þátttaka Héraðsbúa sem og öflugt Evrópusamstarf gefur hátíðinni mikið gildi og skipuleggjendur hafa unnið frumkvöðlastarf í kynningu myndbanda- og vídeólistar.
700IS Hreindýraland er áhugaverður bræðingur listgreina sem auðgar menningar- og mannlíf á Austurlandi sem og alla ferðaþjónustu á svæðinu, með því að laða að erlenda og innlenda listamenn og gesti utan hefðbundins ferðamannatíma.“
Bræðslan fékk verðlaunin í fyrra og áður hefur LungA hlotið þau.
Vildarvinir
Austurfrétt birtir fréttir að austan alla virka daga, öllum aðgengilegar og reiðir sig á auglýsingatekjur og styrki frá lesendum sínum til að halda úti þjónustunni.
Hvers virði finnst þér að hafa aðgang að fréttaþjónustu á borð við þessa?
Smelltu hér ef þú vilt styrkja Austurfrétt.