Fæstir flytja af handahófi á einhvern stað á landakortinu
Viðsnúningur hefur orðið í búsetu í dreifbýli víða á Norðurlöndunum eftir Covid-faraldurinn. Aðgangur að grunnþjónustu og félagsleg tengsl skipta miklu máli þegar fólk velur sér búsetu.Þetta kom fram í erindi Ágústs Bogasonar, sérfræðings hjá Nordregio, á málþinginu Öflugra Austurland sem Austurbrú stóð fyrir á Breiðdalsvík nýverið.
Nordregio er norræn rannsóknastofnun sem meðal annars sinnir byggðarannsóknum. Á hennar vegum hafa á undanförnum árum komið út rannsóknir og skýrslur um hvað fær fólk til að búa í dreifbýli. Meðal annars hefur komið í ljós að fólk flytur í burtu til að komast í nám og líklegra er að konur flytji en karlar.
Ágúst sagði að brottflutningurinn væri í sjálfu sér ekki slæmur, fólk sé fólk sé alið upp við jákvætt sé að fara og skoða heiminn. Síðan sé spurningin um hvað þurfi til að fá fólkið heim aftur. Hann sagði margt fyrir hendi til að halda í fólk. Til dæmis hefði fólk gott tengslanet í heimabyggð, þekkti vinnumarkaði og gæti búið ódýrt í húsnæði fjölskyldunnar. „Samt velja margir að fara.“
Fólk sækir í tengslin
Ágúst sagði að margir hugsuðu fyrst og fremst um menningu og náttúru þegar þeir hugleiddu landsbyggðina. Það breytist þegar fólk fer að velja sér búsetu, þá eru það aðgangur að grunnþjónustu og félagsleg tengsl sem mestu skipa, síðan náttúran og möguleikar til útivistar.
Flest af því fólki sem flytur út á land hérlendis á einhver tengsl við staðinn sem það velur, svo sem nákominn ættingja. „Fæstir flytja á einhvern stað á kortinu.“ Fólk sem flust hefur af höfuðborgarsvæðinu nefnir ýmsa kosti, svo sem ódýrara húsnæði, styttri vegalengdir, rólegheit, góða nærþjónustu og meira traust og öryggi í samfélaginu.
Fjarvinna orðin viðurkennd
Ágúst sagði í kringum Covid-faraldurinn hefði mátt merkja viðsnúning á Norðurlöndunum í að fólk væri tilbúið að flytja úr borgunum. Það færi ekki alltaf langt, vöxturinn væri í nágrenni borganna en í fyrsta sinn hefði fjölgun í þeim staðnað eða fólki í þeim jafnvel fækkað.
Ágúst sagði bæði krefjandi að laða til sín nýtt fólk en fyrst og fremst yrði alltaf að huga að þeim sem væru heima. „Það verður að skapa góðar minningar fyrir þau og láta þeim víða vel. Ef fólk á ekki góðar minningar af staðnum þá velur það varla að flytja til baka síðar meir.“
Hann sagði viðhorfsbreytingu í kjölfar Covid-faraldursins skapa ný tækifæri. „Fólk fylgir störfum en störf geta líka fylgt fólki. Við höfum skoðað hvað sveitarfélögin gera til að nýta möguleika í fjarvinnu. Það er hið sama og áður. Munurinn er að fjarvinna er núna orðin viðurkennd. Núna er spurningin um hvernig sveitarfélögin nýta þetta. Til þess þarf að skapa aðlaðandi stað þar sem fólk vill búa og starfa. Það er mögulegt með að hafa þau atriði sem ég hef nefnt í lagi.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.