Farsæll endir á fræknu ferðalagi

„Ég lenti í einu og öðru á leiðinni en allt gekk þetta þó upp og ég fer héðan með minningar um fallegasta land sem ég hef heimsótt,“ segir Shahaf Galil frá Ísrael. Sá vakti töluverða athygli fyrir að aka Hringveginn á kolsvörtum Ferrari sportbíl þegar Vetur konungur var farinn að gera vart við sig um land allt.


Austurfrétt hitti á Shahaf við upphaf ferðar sinnar fyrir rétt rúmri viku eins og lesa má um hér en þá ætlaði kappinn að drífa sig strax norður á bóginn þar sem veðurspáin þann daginn var í verri kantinum. „Ég fór nú ekkert mjög langt þann daginn áður en ég var komin í smá snjó og hálku,“ segir hann og hlær við.

„Átti eftir að lenda aðeins meira í hálku síðar í ferðinni en ég losnaði að mestu við snjó fyrir utan þann dag. Mér fannst bara mjög spennandi að aka í snjó og hálku því það örvar öll skilningarvit til muna að aka í svoleiðis aðstæðum og ég er svona adrenalínfíkill. Annars fannst mér almennt vegirnir hérna stórfínir alveg og ég gat alveg kitlað pinnann aðeins á stöku stöðum í ferðinni.“

Ísraelinn náði til Seyðisfjarðar þremur stundum áður en Norræna sigldi brott í gærkvöldi og bar sig vel við brottför frá landinu. „Ég er alveg dolfallinn yfir fegurð landsins. Það var eitthvað kostulegt hvert sem litið var í allri ferðinni og hápunkturinn fyrir mig var Jökulsárlónið. Sjaldan fengið eins mikla gæsahúð á ævinni og þegar ég ók yfir brúnna þar.“

Mynd Shahaf Galil


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.