Farþegar skemmtiferðaskipa áhugasamir um lífið á Borgarfirði
Farþegar skemmtiferðaskipa sem koma til Borgarfjarðar eystra eru áhugasamir um þá starfsemi sem fyrirfinnst á staðnum. Þeir eru duglegir að nýta skipulagðar ferðir sem í boði eru í framleiðslu Íslensks dúns og KHB Brugghús.Múlaþing hefur í samvinnu við AECO – Samtök leiðangursskipa á Norðurslóðum, staðið fyrir gerð staðbundins leiðarvísis fyrir ferðafólk sem heimsækir Borgarfjörð. Leiðarvísum sem þessum er ætlað að stuðla að góðum samskiptum og samstarfi heimafólks og gesta.
Mikil aðsókn í dúnkynningu
Ragna Óskarsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Íslensks dúns sem selur vörur úr æðardún, hefur mikla reynslu af skipulögðum ferðum um framleiðsluna. Hún segir að ferðafólki sé hægt að skipta upp í tvennt; farþegum leiðangurskipa sem kaupi leiðsögn um þorpið og þeim sem komi frekar á eigin forsendum með einhverjum sem þekki Borgarfjörð eystri ekki jafn vel og heimafólk.
Hún mælir frekar með því að fólk fjárfesti í leiðsögn til að fá sem mest út úr ferðinni. Þegar það er gert er um að ræða hópa sem leita til Arngríms Viðars (Ásgeirssonar) eiganda gistihússins Álfheima: „Þá er þeim skipt í litla hópa og gengið með þau hér um þorpið, en þessir hópar koma allir við hjá okkur og stoppa oft hjá okkur í um 20 mínútur. Það er mjög skemmtilegt og þá segi ég þeim frá fuglunum, dúntekjunni og þessu merkilega sambandi fugls og manns.
Ég segi þeim frá því hvernig dúnninn verður til ásamt því að leyfa þeim að halda á honum auk þess sem ég sýni þeim vörurnar sem við búum til úr honum. Það hefur fallið vel í kramið og oft myndast mikil umferð hér inni hjá okkur en hóparnir fara upp í 20-25 manns,“ segir Ragna.
Betri mynd að komast á hópferðir
Hótel Blábjörg reka veitingahús, hótel, gistihús og heislulind, en líka kaffihús og KHB Brugghús og bjórstofu. Reynsla Helga Sigurðssonar, annars eigenda Blábjarga, af fyrirkomulaginu með gesti skemmtiferðaskipanna er nokkuð óformlegri en hjá Rögnu. Í bígerð er að halda betur utan um hópana sem koma í brugghúsið.
„Ég hef áður séð hópa labba í gegnum þorpið og sumir hafa fengið að fara í gegnum húsið en það voru ekki komnir túrar til að sýna þeim aðstöðuna, leyfa þeim að smakka eða segja þeim frá sögunni. Núna erum við hins vegar komin með góða áætlun fyrir hópa sem mun fá betri kynningu á næstunni.“ Hann bætir við að nú sé einnig hægt að selja áfengi beint frá framleiðslustað, sem komst á laggirnar í fyrra „þannig að við megum selja öllum sem kíkja í heimsókn,“ segir Helgi og er augljóslega bjartsýnn á framhaldið.
Brugghúsið framleiðir bjór, gin og landa: „Það eru í raun tvær sögur; annars vegar um landann og ginið og hinsvegar um bjórinn. Í túrnum fær fólk svo að smakka nánast alla framleiðsluna,“ segir Helgi og bætir við að KHB bjórinn séu alls fjórar tegundir sem samanstanda af ljósum lager, dökkum lager, pale ale og IPA , en svo bætist við árstíðabjór eins og súrbjór sem framleiddur er með íslenskum rabarbara. Bjórarnir hafa meðal annars funnið til alþjóðlegra verðlauna. Brugghúsið er til húsa í gamla kaupfélagshúsinu, einu elsta húsi þorpsins sem byggt var árið 1897, en það hefur lengstu samfelldu verslunarsögu á Íslandi og er því í raun mjög merkilegt hús.
Æðardúnn eini sjálfbæri dúnninn í heiminum
Íslenskur dúnn hefur nýverið stækkað við sig, en samkvæmt Rögnu fór húsnæðið úr einungis 50 fermetrum upp í tæplega 200 fermetra, sem gerði það enn þægilegra að taka á móti hópum: „Það var þannig að starfsemi féll niður meðan hóparnir voru hjá okkur en núna er orðið töluvert auðveldara að taka á móti þeim. Það skiptir máli að undirbúa hópana vel fyrir komuna.“
Að sögn Rögnu eru æðardúnsvörur þess eðlis að lítið er til á lager og yfirleitt ekki hægt að afhenda vörurnar um leið og pöntun berst á staðnum. Að fólk viti af fyrirtækinu fyrir komuna á staðinn sé því ákjósanlegra. „Þá væri hægt að panta fyrirfram og fá vöruna í hendurnar við komu, sem þýðir að viðkomandi getur fengið virðisaukaskattinn endurgreiddan, sem annars er ekki hægt. Það væri jafnvel enn betra að afhenda vöruna á hóteli í Reykjavík áður en fólk leggur aftur af stað í siglingu eða yfirgefur landið,“ segir Ragna og nefnir ánægju fólks, en fyrirtækið fær oft pantanir upp í tveimur árum eftir að fólk stoppar hjá þeim.
„Ég er alltaf að sá fræjum, því að sú ákvörðun að fjárfesta í æðardúnssæng eða kodda er þannig að fólk tekur hana yfirleitt ekki fyrir framan tuttugu ókunnugar manneskjur heldur hugsar málið frekar í rólegheitum heima hjá sér.“
Samkvæmt Rögnu er um nokkurn misskilning að ræða þegar kemur að æðardún. Eftir að misvísandi myndband, sem var ekki á vegum Íslensks dúns, fór í óvænta deilingu á internetinu er algengt að halda að dúnn sé til dæmis vatnsheldur. „Ég hef reglulega þurft að svara spurningum um þetta, en raunin er sú að hann hrindir eingöngu frá sér vatni fyrstu sekúndurnar,“ segir Ragna. Þetta þekkja Íslendingar sem eiga æðardúnssængur.. Einnig virðast ferðamenn oft halda að dúnninn sé tekinn beint af fuglunum, sem er auðvitað ekki rétt.
Tékknesk fyrirmynd og eimað fyrir sjálfbærni
Þrátt fyrir að borgfirsku fyrirtækin tvö leitist við að nota innlend og staðbundin innihaldsefni í framleiðslu leit KHB Brugghús þó til Tékklands við gerð bjórsins: „Við lærðum hjá tékkneskum bruggmeistara sem var að brugga hjá Urquell í mörg ár. Hann og nokkrir aðrir komu hingað til okkar og kenndu okkur á þetta, en yfirbruggmeistarinn hjá okkur heitir Þorsteinn Brandsson.“
Einnig vinna þeir náið með Tékkunum við gerð bjórsins og allar nýjar uppskriftir eru unnar í samstarfi við þá. „Til dæmis vorum við þar í tvær vikur í janúar að skoða nýja uppskrift að súrbjór en í honum er meðal annars íslenskur rabarbari. Við leggjum mikið upp úr því að gæðin séu góð og að við séum ekki að hella neinu niður. Einnig eimum við árstíðabundinn bjór ef eitthvað er afgangs svo við nýtum allt.“ Helgi segir brugghúsið jafnframt ekki notast við nein óþarfa aukaefni við gerð bjórsins.
Heimafólkið dyggir viðskiptavinir
Aðspurð um samsetningu viðskiptavina segist Ragna ekki getað fullyrt um það, en leiðangurskipin eigi þó einhvern hluta: „Við seljum ekkert á staðnum, heldur nær eingöngu í gegnum netið og yfir 90% af pöntunum flytjum við úr landi. Flestir af þeim sem koma í hús til okkar koma þó frá leiðangurskipum yfir sumartímabilið maí til september, þó það komi alltaf einhverjir inn frá tjaldsvæðum og hótelum. Arngrímur Viðar hefur líka alltaf verið duglegur að kynna okkur.“
Þá er í skoðun að bjóða upp á sérferðir frá skipunum í Íslenskan dún, en Ragna nefnir mögulegt aukið samstarf við leiðangurskipin. Í því sambandi hefur AECO safnað upplýsingum um íslenska framleiðendur í verkefninu „Made in the Arctic“ í þeim tilgangi að auka efnahagslegan ábata frá leiðangurskipum.
Menningararfur Borgarfjarðar eystri hefur óneitanlega stækkað með tilkomu Íslensks dúns og KHB Brugghúss, en íbúar ættu flestir að kannast við fyrirtækin. Hvað varðar áfengissmekk heimafólks nefnir Helgi að IPA bjórinn sé vinsælastur: „Hann er 6.7 prósent. Borgfirðingar fíla það sem er sterkt.“