Fáskrúðsfirðingum þykir vænt um Franska daga

Dagskrá bæjarhátíðar Fáskrúðsfirðinga, Franskra daga, hófst í gærkvöldi þótt hátíðin verði ekki sett formlega fyrr en annað kvöld. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segist hlakka til að sjá afrakstur undirbúningsvinnunnar.

Hátíðin hófst í gærkvöldi með gönguferð og barsvar er í kvöld en formleg setning verður við upphaf kenderísgöngu annað kvöld. Gangan er meðal stærstu viðburða hátíðarinnar.

„Gangan er óvissuferð. Hún er skipulögð af saumaklúbbum sem skiptast á að halda hana, ég veit ekki einu sinni til fulls hvað fer fram.

Ég veit bara að hún verður einkar glæsileg og enginn svikinn sem mætir í hana enda verður vel veitt,“ segir Daníel Geir Moritz, framkvæmdastjóri Franskra daga í ár.

Af öðrum helstu viðburðum má nefna brekkutónleikum á föstudagskvöld með varðeldi og flugeldasýningu í lokin. „Ingó veðurguð stjórnar þar fjöldasöng. Við byrjum þá dagskrá fyrr en síðustu ár og stefnum á að vera með lengri og vandaðri dagskrá.“

Á laugardag verður síðan dagskrá í miðbænum ætluð fjölskyldum. Þá er ótalin minningarstund um franska sjómenn, uppistandstónleikar með Eyþóri Inga, dansleikur með Stuðlabandinu og fleira.

Sú hljómsveit spilar líka á dansleik ætluðum ungmennum á aldrinum 14-18. „Það er nýr viðburður, við ætlum að vera með Fjarðaball að sumri því fer rúta frá Norðfirði sem stoppar á Reyðarfiðri og Eskifirði.

Þessi viðburður er til kominn vegna frumkvæðis unglinga sem leituðu til mín. Við tókum því vel enda kominn tími til að gera eitthvað mjög flott fyrir þennan aldur sem oft gleymist.“

Daníel Geir segir undirbúning hátíðarinnar í ár hafa gengið vel og Fáskrúðsfirðinga verið samhenta í vinnunni.

„Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð gagnvart hátíðinni, bæði á förnum vegi og samfélagsmiðlum. Það er búið að að vera skemmtilegt að skipuleggja hana. Fáskrúðsfiðringum þykir vænt um Franska daga og tala fallega um hátíðina.

Það hefur verið virkilega gott að vinna með undirbúningsnefndinni sem þekkir hlutina út og inn. Þess vegna hlakka ég til að sjá hátíðina verða að veruleika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar