Fékk gert að skútunni á Djúpavogi eftir sjávarháska

Ævintýramaðurinn Nick Kats lagði skútu sinni Teddy vetrarlangt á Djúpavogi eftir að hafa lent í sjávarháska suður af Íslandi fyrir ári. Hann lauk nýverið ferð sinni um Norðuratlantshafið en hann hefur einkum sérhæft í siglingum um norðurslóðir.

„Ég kann afskaplega vel við mig kringum Grænland og ekki síður er skemmtilegt að sigla meðfram Íslandi. Bæði löndin mjög falleg og alltaf ber eitthvað nýtt fyrir sjónir. Þó er eitthvað sem heillar mig sérstaklega við ísinn við Grænland og ég veit fátt betra í lífinu en að sigla nálægt ísnum.

Báturinn minn er einmitt svona seglbátur af gamla taginu með sérstyrkt stefni til siglinga í ís og sjálfur er ég gamaldags sjómaður því ég nota engin raftæki á ferðum mínum heldur held mig eingöngu við gömlu góðu pappírskortin. Mér finnst ég njóta alls betur með þeim hætti,“ segir Nick.

Hafði slæma tilfinningu fyrir siglingunni heim


Nick er merkilegur karakter. Hann er 66 ára, Bandaríkjamaður fæddur í Frakklandi og býr á Írlandi. Hann lagði um tíma stund á læknisfræði með áherslu á náttúrulækningar en vann einnig í mörg ár sem smiður. Hann fæddist nánast heyrnarlaus, er aðeins með 1% heyrn og þarf að lesa varir til að geta átt í samskiptum.

Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á skútusiglingum og keypti Teddy árið 2007. Hann hefur síðan síðan siglt víða, meðal annars fjórum sinnum til Grænlands og tólf sinnum til Íslands, þar af þrisvar í kringum landið. Ferillinn var áfallalaus þar til hann var, ásamt félaga sínum, á leið heim til Írlands frá Grænlandi í september í fyrra. Um 300 sjómílur suður af Íslandi lentu þeir í óveðri.

„Ég hafði reyndar verið með slæma tilfinningu fyrir ferðinni heim. Það var greinileg ókyrrð í veðrinu, loftþrýstingurinn fór niður í 733 millíbör og við sigldum beint inn í storm. Ég fregnaði síðar að ölduhæð á þessum slóðum á þessum tíma var kringum 18 metrar. Öldurnar börðu á bátnum linnulaust í langan tíma og voru nokkrum sinnum nærri því að hvolfa honum, áður en það gerðist.

Við það brotnaði aðalmastrið að hluta en við vorum inni og hentumst auðvitað til og frá með tilheyrandi látum og lítils háttar meiðslum en skútan rétti sig þó af á ný góðu heilli. Ég var alveg farinn að hugsa að þetta væru sennilega endalokin þar sem við vorum á kafi um skeið en einhver ákvað að svo yrði ekki. En þetta var óumdeilanlega óhugnanlegasta stund sem ég hef lifað hingað til.“

Þeir félagar notuðu næstu tvo daga til hvíldar enda báðir marðir víða á líkamanum eftir barninginn en ekkert alvarlegra en það. Skútan sjálf skemmdist töluvert. Tvö framsegl voru ónýt sem og bogspjót skútunnar og dæla þurfti 200 lítrum af vatni innan úr bátnum. Eftir bráðabrigða lagfæringar var síðan haldið á lágmarkshraða áleiðis til Grindavíkur.

Heldur ótrauður áfram


Gamall félagi Nicks, Jón Karlsson sjómaður frá Djúpavogi, hafði samband eftir að félagarnir komust til Grindavíkur og bauðst til að geyma skútuna á Djúpavogi. Nick kom síðan til Djúpavogs í byrjun sumars og lagfærði Teddy. Hann naut þar aðstoðar heimafólks, á borð við Skúla Benediktsson.

Nick sigldi svo frá Djúpavogi norður fyrir land til Vestfjarða, dvaldi þar um tíma áður en hann fór suður í gegnum Færeyjar og Skotland og kom nýverið heim. „Ég hélt kannski að það myndi dofna yfir siglingaáhuganum eftir þessar hörmungar á, enda höfðu þær veruleg andleg áhrif á mig. En ég er á eftirlaunum og það er ekkert annað sem mér finnst skemmtilegra að gera en að sigla hingað og þangað og því held ég áfram ótrauður.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar