![](/images/stories/news/2016/hosurnar_0002_web.jpg)
Félag starfsmanna hefur gefið tæki fyrir tíu milljónir á sjúkrahúsið
Árlegur markaður Hosanna, líknarfélags starfsmanna Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað, opnaði í Safnahúsinu í gær. Til sölu er heimabakaðar kökur og handverk en ágóðinn er nýttur í tækjakaup fyrir sjúkrahúsið.
„Við vorum að spjalla saman í kaffitímanum og þá kom í ljós að stóllinn sem fólk situr í þegar tekið er úr því blóð var orðinn ónýtur. Það vantaði peninga til þess að kaupa nýjan og við ákváðum að hafa markað,“ segir Þorgerður Malmquist ein af Hosunum um tilurð markaðarins sem haldinn hefur verið árlega frá 2009.
Síðan hefur félagið gefið eða tekið þátt í áhaldagjöfum á sjúkrahúsið fyrir á tíundu milljón króna. Undirstaðan að því er markaðurinn sem haldinn er á Dögum myrkurs.
Að auki eru handverk Hosanna til sölu á sjúkrahúsinu og segir Þorgerður töluvert um að það sé keypt í nýburagjafir. Dæmi eru líka um að einstaklingar eða félög á Norðfirði gefi Hosunum peningagjafir, til dæmis gaf tíundi bekkurinn afgang af ferðasjóði sínum eftir síðustu ferð. „Fólkið í bænum er mjög ánægt með okkur.“
Hún segir um 10-15 konur hittast hvert þriðjudagskvöld í borðstofu sjúkrahússins til að hekla og prjóna, eins og nafn félagsins vísar til. Að markaðinum leggja 50-70 manns hönd á plóg. Í hópnum eru ekki eingöngu núverandi starfsmenn.
„Það koma til okkar starfsmenn sem hafa ráðið sig annað í vinnu og finnst gaman að vera með, sem og 5-6 konur sem eru hættar. Þær vilja gjarnan halda tengslunum.“
Konurnar í hópnum kenna hvor annarri mismunandi handverk eins og úrvalið á markaðinum ber með sér. „Þið sjáið alls konar handverk hér. Til dæmis er hér dúkur sem unninn er með harðangurs- og klaustursaumi sem er handverk sem sést ekki víða.“
Markaðurinn er líka í stöðugri þróun. „Smákökubarinn er nýjung hjá okkur í ár. Það er hægt að velja smákökur í poka líkt og á nammibarnum.“
Markaðurinn er opinn frá 16-19 í dag og 13-16 á morgun.