Fellamenn óttast um tónlistarskóla
Hundrað fimmtíu og þrír íbúar Fellahrepps hins forna vilja að horfið verði frá hugmyndum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs um að sameina Tónlistarskólann í Fellum Tónlistarskólanum á Egilsstöðum. Velunnarar skólans í Fellum gengu í hús í lok nóvember og söfnuðu undirskriftum þar að lútandi. Allir nema fjórtán rituðu undir yfirlýsingu þessa efnis og var hún afhent bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs. Fræðslunefnd sveitarfélagsins vill halda undirbúningi að sameiningu áfram.
Á milli 80 og 90% nemenda Fellaskóla stunda nám í tónlistarskólanum. Á Egilsstöðum er það hlutfall rétt yfir 40%. Gagnrýnendur óttast að með sameiningu muni tónlistarskólinn í Fellabæ jafnvel hverfa úr Fellaskóla og segja einnig að hvergi komi fram að um fjárhagslegan ávinning geti verið að ræða með sameiningu.
Tónlistarskólinn í Fellum var stofnaður árið 1994, þegar Fellahreppur klauf sig út úr samstarfi um Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs, sem var með starfsstöð á Egilsstöðum. Fellamenn vildu þá færa kennsluna nær nemendum og íbúum, auka fjölbreytni í námsframboði og gefa öllum sem þess óskuðu kost á að stunda tónlistarnám. Nemendur eru í dag 104, en áður en Tónlistarskólinn í Fellum var stofnaður voru rétt yfir tíu nemendur úr Fellum sem sóttu nám í Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs.
Aðalsteinn Aðalsteinsson, einn þeirra sem söfnuðu undirskriftunum, segir að skólasamfélagið í Fellum byggi á mjög miklu og nánu samstarfi þessara stofnana, skólastjórnenda, kennara og nemenda. Það megi segja að þessir skólar hafi unnið ákveðið brautryðjandastarf hvað varði samþættingu skólastiga og námsgreina með samstarfi og samvinnu sinni við uppsetningu leikrita og söngleikja. Einnig geti grunnskólanemendur Fellaskóla stundað tónlistarnám á grunnskólatíma. Það byggist á nánu og góðu innanhússsamstarfi skólastjórnenda, kennara og nemenda, en slíkt krefjist tillitssemi, sveigjanleika og góðrar yfirsýnar yfir námsstöðu nemenda. Að sameina Tónlistarskólann í Fellum og Tónlistarskólann á Egilsstöðum í eina deild með einni yfirstjórn, hafi í för með sér fjarstjórn og lengri boðleiðir. Yfirsýnin, sveigjanleikinn og tillitssemin sem skólasamfélagið í Fellum byggir á muni glatast.
Á fundi fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs, sem haldinn var í fyrradag, lagði Soffía Sigurjónsdóttir fram tillögu um að fallið yrði frá hugmynd um sameiningu skólanna. Var tillagan felld þar sem búið sé að samþykkja af bæjarstjórn að stofna starfshóp sem vinnur að skipulagi hins nýja skóla. Telji fræðslunefndin að með því að sameina skólana verði skólastarfið enn betra.