Ferðalög fylgja brúðuleikhúsinu
Paragvæska-íslenska brúðuleikhúsið Kunu'u Títeres hefur Evrópuferð sína með sýningum á Egilsstöðum og Eskifirði um helgina. Tess Rivarola á Seyðisfirði er annar tveggja forsprakka brúðuleikhússins en hún segir ferðalög gjarnan loða við þá einstaklinga sem velji sér brúðugerð sem starfsvettvang.„Margir Íslendingar þekkja til Bernd Ogrodnik sem hefur búið hér lengi en ferðast víða um heim. Það eru nær allir brúðumeistarar á faraldsfæti. Það er samt óvenju langt að fara frá Paragvæ til Íslands en við lögðum mikið á okkur við að afla styrkja til að gera þetta að veruleika og tókst það meðal annars með stuðningi Uppbyggingarsjóðs Austurlands,“ segir Tess.
Hún og Carola Mazzotti stofnuðu Kunu'u Títeres í Paragvæ, heimalandi Tess, árið 2009. Carola er fædd í Síle en þær kynntust í Paragvæ þar sem Carola hefur búið síðustu ár en Tess flutti til Seyðisfjarðar fyrir fimm árum. Carola er brúðugerðarkonan meðan bakgrunnur Tess er í leiklist og þar með brúðustjórninni, líkt og hún gerði í verðlaunaleikritinu Hollvættur á heiði sem sýnt var í Sláturhúsinu í fyrra.
Sýningin sem þau sýna í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun og í Valhöll á Eskifirði á sunnudag kallast Leyndarmál Ñanduti. Sýningin var frumsýnd í Brasilíu í fyrra og síðan Paragvæ en eftir viku verða Tess og Carola komnar til Madrídar á Spáni þar sem þær taka þátt í stórri brúðulistahátíð.
Sögur frá Paragvæ
Ñanduti er paragvæsk vefnaðarhefð sem byggir á mynstri köngulóarvefja og um það fjallar sýningin. „Við sömdum verkið út frá sögum kvennanna sem hafa ofið samkvæmt þessari hefð. Minningar þeirra eru til í bókum en við tókum líka viðtöl við þær. Við sækjum líka í stríðið sem Paragvæ stóð á seinni hluta 19. aldar.
Sýningin fjallar um ömmu sem er vefari og er uppi í stríðinu. Hún lifir það af en tapar hjarta sínu og um leið hæfileikanum til að vefa. Þar með verður eftir hol og því fæðast afkomendur hennar ekki með hjarta heldur hol. Hjörtu tapast alltaf í stríðum. Önnur persóna verksins er afkomandi hennar sem ferðast aftur í tímann til að enduruppgötva þessa færni með aðstoð þriðju persónunnar sem er könguló. Verkið er óður okkar til kvennanna sem vefa í Paragvæ sem annarra sem hafa stundað vefnað annars staðar í heiminum,“ segir Tess.
Íslensku og paragvæsku vefnaðarmynstrin áþekk
Þær stóðu fyrir viðburði í Hallormsstaðaskóla um síðustu helgi þar sem notuð var íslensk ull til að vefa nokkurs konar köngulóarvef út frá minningum. „Við vorum að búa til samtal milli okkar hefða og þeirra íslensku, sem er ullin. Okkur kom það á óvart að Íslendingum fannst paragvæska mynstrið minna á íslenskan vefnað,“ segir Tess.
Eftir sýningarnar á Spáni halda þær síðan áfram til Brasilíu og loks Paragvæ þar sem þær munu staldra við í nokkurn tíma. „Við verðum með heila viku af sýningum í Paragvæ því við erum að fagna 15 ára afmæli brúðuleikhússins okkar. Þetta verður mögnuð reisa,“ segir Tess.
Mynd: Juanjo Ivaldi