Ferðast um Ísland á traktor: Hlakka til að tala við fólkið á leiðinni
Daninn Kurt Fredriksen var meðal þeirra farþega sem komu á farartækjum sínum með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun. Kurt skar sig þó úr fjöldanum því farartæki hans er Valmet dráttarvél, árgerð 1985. Á henni ætlar hann að keyra um landið næstu fimm vikur.„Ef þú ferðast um landið á bíl ertu á 80-100 km hraða, sérð ekki neitt og talar ekki við neinn. Þú sást hérna niður á bílastæðinu hvað það komu margir að skoða og mynda dráttarvélina. Hún vekur hjá fólki forvitni og gleði, því hugmyndin er skemmtileg.
Það eru margir sem fara að spyrja út í ferðalagið og þannig kemst ég á tal við fólk. Ég hlakka til að tala við Íslendinga og aðra sem ég hitti á leiðinni,“ segir Kurt.
Vonast til að komast yfir hálendið
Kurt ætlar sér næstu fimm vikurnar að keyra um Ísland alls 3500 km leið, eða um 100 km á dag, út með ströndum og upp á mið-hálendið. „Ég hef komið tvisvar áður. Fyrir 5-6 millilenti ég með fjölskyldunni í Reykjavík á leið til Grænlands en fyrsta skiptið var fyrir 25 árum. Þá keyrði ég með konu minni og dóttur hringinn.
Við gátum ekki farið þvert yfir landið því vegirnir þar voru of vondir. Ég hugsa að þeir séu orðnir betri en traktorinn kemst líka ansi víða. Ég hef meiri áhyggjur af hjólhýsinu, það er lágt undir það. En ef ég sé fram á að lenda í vandræðum sný ég bara við.“
Mikill áhugi á traktorsferðunum
Þetta er ekki fyrsta langferð Kurts á dráttarvélinni. Fyrir tveimur árum keyrði hann frá heimili sínu í Reersö á Sjálandi upp alla Svíþjóð og í gegnum Noregi til Nordkap, nyrsta odda Evrópu og þaðan heim niður eftir Finnlandi með viðkomu í verksmiðjum Valmet. Sú ferð vakti mikla athygli og um hana var meðal annars fjallað í dönskum fjölmiðlum.
„Eftir að ég kom heim úr ferðinni hef ég haldið 48 fyrirlestra um hana. Á leiðinni varð ég var við að margir höfðu gaman af þessu og það er enn verið að spyrja mig um ferðina. Ég fór því að hugsa um hvert ég gæti farið næst og datt Ísland í hug því hingað er gott að fara með ferjunni. Ég vona að á ferðinni fái ég efni til að nýta í fyrirlestra þegar ég kem heim aftur.“
Seldi býlið en hélt dráttarvélinni
Kurt er með doktorsgráðu í norrænni bókmenntasögu og á mun ferð sinni meðal annars hug um að heimsækja staði sem haft hafa áhrif á danska listamenn og rithöfunda til sjá hvernig þeir hafa þróast. „Ef þú lest bara bækur færðu hausverk og ef þú ert bóndi þá færðu í bakið. En ef þú gerir þetta til skiptis þá verður allt í góðu.“
Dráttarvélin er af gerðinni Valmet 604, 63 hestöfl og hefur verið í eigu Kurt frá árinu 1990. „Við vorum með lítið býli sem við seldum. Frá því á ég bara traktorinn eftir. Hann er hins vegar lítið keyrður, rúma 3700 vinnustundir. Þess vegna hef ég ekki neinar áhyggjur af honum í langferð. Ég hef meiri áhyggjur af hjólhýsinu, það er miklu eldra. En ef eitthvað bilar þá annað hvort laga ég það eða sæki mér hjálp.“
Ánægður með fyrsta daginn
Kurt segir að vel fari um sig í ekilssætinu. „Ég fékk nýtt sæti með loftfjöðrun sem ég get stillt og það munar miklu. Ég keyri líka mjúkt þannig ég er bjartsýnn á þetta.“
Fyrsti hluti ferðar Kurt var í morgun yfir Fjarðarheiðina. „Tollararnir voru forvitnir og sögðust aldrei hafa heyrt um það fyrr að nokkur keyrði hringinn um Ísland á dráttarvél. Ferðin yfir heiðina gekk vel. Ég beið þar til aðrir farþegar voru flestir farnir því ég fer hægar yfir. Ef ég sá einhvern í speglunum vék ég vel þannig þeir kæmust fram úr. Þetta er fyrsti dagurinn minn en ég hlakka mikið til ferðalagsins framundan.“
Fylgjast má með ferð Kurt á Facebook.