Sautján þorrablót Austfirðinga
Austurfrétt hefur fregnað af sautján þorrablótum sem haldin verða á vegum Austfirðinga á næstu viku. Tæpur helmingur þeirra er nú um helgina.
Sjö blót eru haldin nú um helgina, þar af tvö strax í kvöld, bóndadag, annars vegar á Egilstöðum, hins vegar á Reyðarfirði.
Mikil eftirvænting er á þeim stöðum, sem og víðar, þar sem þorrablótin hafa ekki verið haldin frá árinu 2020 vegna Covid-faraldursins. Margar þorrablótsnefndir gerðu sitt besta með myndbandsatriðum árið 2021 og/eða skiluðu af sér í fyrra með vorskemmtun í fyrra.
Á Egilsstöðum seldust miðar á blótið upp á hálftíma í forsölu. Reyðfirðingar fagna sínu 100. blóti sem jafnframt verður fyrsti viðburðurinn í nýju íþróttahúsi.
Fimm blót eru síðan á morgun sem þýðir að sex af 15 blótum sem haldin eru eystra fara fram um helgina. Breiðdælingar eru síðastir í röðinni og er þeirra blót reyndar ekki haldið fyrr en á Góu. Sextánda blótið er síðan skipulagt saman að átthagafélögum Austfirðinga í Reykjavík.
Blótin eiga sér flest langa sögu. Sums staðar til sveita hefur þeim fækkað síðustu ár og verið sameinuð. Tilkynnt hefur verið að blót Skriðdals og Valla falli niður í ár þar sem ekki hafi tekist að manna nefnd. Við upptalninguna má bæta hjónaballi Fáskrúðsfirðinga, sem vanalega hefur verið haldið í byrjun janúar fyrir Þorra en er að þessu sinni laugardaginn 28. janúar.
Föstudagur 20. janúar
Egilsstaðir í íþróttahúsinu
Reyðarfjörður í nýju íþróttahúsi
Laugardagur 21. janúar
Eskifjörður í Valhöll
Seyðisfjörður í Herðubreið
Borgarfjörður í Fjarðarborg
Vopnafjörður í Miklagarði
Sveitablóð Norðfjarðar í Egilsbúð
Föstudagur 27. janúar
Fellabær í íþróttahúsinu
Félag eldri borgara í Múlaþingi á Eiðum
Laugardagur 28. janúar
Kommablót í íþróttahúsinu í Neskaupstað
Laugardagur 4. febrúar
Fljótsdalur í Végarði
Austfirðingablót í Valsheimilinu, Reykjavík
Djúpivogur á Hótel Framtíð
Laugardagur 11. febrúar
Jökuldalur, Jökulsárhlíð og Hróarstunga í Brúarási
Eiða- og Hjaltastaðaþinghár í Hjaltalundi
Laugardagur 18. febrúar
Hróarstunga í Tungubúð
25. febrúar
Breiðdalsvík í íþróttahúsinu
Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var missagt að blót Tungubúa yrði haldið með Brúarásblótinu. Hið rétta er að það verður á sínum stað í Tungubúð á þorraþræl. Eins féll niður sveitablót Norðfjarðar.