Fjallað um sjálfbærni og framtíðina á málþingi í Breiðdalssetri

Sjálfbærni frá ýmsum sjónarhornum verður umfjöllunarefni málþings sem haldið verður í Breiðdalssetri á laugardag. Um leið verður rætt um hvernig efla megi íslenskt dreifbýli til framtíðar.

„Við höfum verið með málþing á hverju ári, nýtt efni í hvert sinn, í lok sumars. Við höfum lagt áherslu á að fá fyrsta flokks fyrirlesara og hafa málþingin vönduð.

Þau hafa verið vel sótt, ekki bara af Breiðdælingum heldur fólki af öllu Austurlandi,“ segir Hákon Hansson, formaður stjórnar setursins.

Hann segir umfjöllunarefni hafa verið valið fyrir atbeina Kristínar Völu Ragnarsdóttir, prófessors í jarðfræðideild Háskóla Íslands. Hún tók sæti í stjórn setursins í fyrra en hún hefur undanfarin ár lagt áherslu á rannsóknir á sjálfbærni og verið fengin til að flytja fyrirlestra víða um lönd.

Kristín Vala er einnig meðal fyrirlesara og stjórnandi málþingsins. „Við vildum nýta þekkingu hennar og reynslu. Loftslagsmál og sjálfbærni hafa verið mikið í umræðunni og okkur fannst tilvalið að fá hana til að skipuleggja þetta með okkur. Það er fengur að fá slíkt fólk inn í starfsemina,“ segir Hákon.

Auk hennar eru sjö aðrir fyrirlesarar áður en málþinginu lýkur með pallborði sem í verða ungir Breiðdælingar. „Þetta unga fólk mun tala um framtíðina og segja sína skoðun á því sem fram fer á fundinum. Ég vona að þetta málþing veiti okkur bjartsýni til framtíðar og nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að byggja upp í dreifbýli,“ segir Hákon.

Dagurinn verður einnig nýttur til að fagna útgáfu Handbókar um jarðfræði Austurlands. Martin Gasser, fyrrum starfsmaður Breiðdalsseturs, er aðalhöfundur bókarinnar en meðhöfundar eru Christa M. Feucht, Lúðvík E. Gústafsson, Leó Kristjánsson, Þorvaldur Þórðarson og Jóhann Helgason. Bókin er á ensku, 160 síður í A5 broti.

Dagskrá málþingsins:

13:00-13:10 Hákon Hansson, formaður stjórnar BDS, setur sjálfbærniþing og segir frá stofnun háskólaseturs.
13:10-13:30 Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor Háskóla Íslands, Ástand heimsins í dag og þörn fyrir sjálfbærnihugsun
13:30-13:50 Þorvaldur Þórðarson, prófessor Háskóla Íslands, Tækifæri fyrir BDS sem Háskólasetur með áherslu á fræðimennsku sem tengist jarðfræði Austurlands
13:50-14:10 Guðrún Óskarsdóttir, Náttúrustofu Austurlands, Sérkenni gróðurfars Austurlands
14:10-14:30 Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, Annes og eyjar fyrir Austurlandi
14:30-14:50 Gunnlaugur Stefánsson, sóknarprestur í Heydölum, Mikilvægi nýsköpunar í fámennum samfélögum
14:50-15:30 Kaffihlé
15:30-15:50 Bryndís Fiona Ford skólameistari, Vertu með í framtíðinni! Hvernig búum við til nám sem skiptir máli fyrir sjálfbæra framtíð?
15:50-16:10 Pálmi Einarsson, bóndi og iðnhönnuður: Hampur til sjálfbærni: Saga, notagildi og tilraunaræktin í Gautavík
16:100-16:30 Birgir Jónsson sagnfræðingur, Úr fortíð til framtíðar. Hvernig er hægt að nota fortíðina sem vegvísi til þróunar?
16:30-16:55 Pallborðsumræður um framtíð Breiðdals með sjálfbærni að leiðarljósi:
Hrefna Ingólfsdóttir Melsteð mannfræðingur, 
Jóhannes Bergur Gunnarsson háskólanemi við HR,
Stefán Aspar Stefánsson, háskólanemi við HA,
Oddný Anna Björnsdóttir, bóndi og sjálfstæður ráðgjafi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar