Fjarðabyggð vann Útsvar í þriðja sinn: Gaman að vinna spurningakeppnir eins og aðrar keppnir
Lið Fjarðabyggðar vann Kópavog 82-71 í úrslitaþætti spurningakeppninnar Útsvars á föstudagskvöld og varð þar með það sveitarfélag sem oftast hefur unnið keppnina. Liðsmaður segir reynslu og herkænsku hafa borgað sig á lokasprettinum.„Það er ógeðslega gaman að vinna spurningakeppnir – eins og aðrar keppnir,“ segir Birgir Jónsson, einn liðsmanna Fjarðabyggðar og skólastjóri á Eskifirði, aðspurður um tilfinninguna að hafa unnið keppnina.
Fjarðabyggð vann keppnina fyrst árið 2013 en þá voru í liðinu Kjartan Bragi Valgeirsson, Jón Svanur Jóhannsson og Sigrún Birna Björnsdóttir. Annað skiptið var 2017 en þá voru í liðinu Heiða Dögg Liljudóttir, Hákon Ásgrímsson og Davíð Þór Jónsson.
Hákon og Heiða voru í liðinu nú, ásamt Birgi, sem var á sínu öðru ári í liðinu. „Það eru forréttindi að koma inn í svona sterkt lið,“ segir hann.
Héldu sig við planið
Fjarðabyggð hafði undirtök í keppninni á föstudag og leiddi fyrir lokaspurningarnar, þar sem mest er hægt að fá 15 stig, með 16 stigum. Kópavogur átti leik á undan og svaraði fimmtán stiga spurningu rétt meðan Fjarðabyggð svaraði tíu stiga spurningu. Aftur svaraði lið Kópavogs rétt 15 stiga spurningu og komst þar með yfir en Fjarðabyggð náði forskotinu aftur með að svara 10 stiga spurningu. Kópavogur reyndi svo við 15 stiga spurningu en mistókst og þar með var sigurinn Fjarðabyggðar.
„Maður var orðinn aðeins stressaður undir restina þegar Kópavogur svaraði tveimur 15 stiga spurningum rétt í röð. Við fórum hins vegar ekkert á taugum þótt þau kæmust ekki yfir. Hákon og Heiða hafa lært það af reynslunni að nýta hléið fyrir síðasta hlutann til að leggja upp plan. Við gerðum það núna og héldum okkur við það.“
Keppnin í ár var eins konar stjörnukeppni en til leiks mættu lið sem höfðu unnið, eða náð langt, síðustu ár. Þetta er jafnframt síðasta Útsvarskeppnin í bili. Á leið sinni í úrslitin lagði Fjarðabyggð því gríðarsterk lið svo sem eins og sigurlið Grindavíkur og Reykjavíkur. „Þetta voru fjórar keppnir í vetur og öll liðin sem við unnum voru mjög góð.“
Vissi ekki af myndbandi krakkanna
Í byrjun keppninnar var innskot af þorrablóti Reyðfirðinga þar sem liðinu var óskað góðs gengis. Þá var sýnt myndband sem nemendur í níunda bekk Grunnskóla Eskifjarðar gerðu til stuðnings liðinu.
„Krakkarnir í skólanum gerðu þetta á föstudeginum eftir að ég var farinn suður. Ég vissi ekkert af því fyrr en það birtist á skjánum svo það kom mér mjög á óvart. Mér fannst það æðislegt og trúi að það hafi átt stóran þátt í sigrinum,“ segir skólastjórinn.
Föstudagurinn fór þess í stað í undirbúning, eins og venjulega. Að þessu sinni var tekin æfingakeppni við Gettu betur lið Menntaskólans við Hamrahlíð sem Heiða Dögg þjálfar og vann Fjarðabyggð hana.
Vinur Birgis hefur einnig aðstoðað Fjarðabyggð. „Eiríkur Guðmundsson hefur þulið yfir okkur spurningar alla þessa föstudaga en aldrei komið í salinn á keppnirnar. Ég bauð honum með á úrslitakeppnina en hann vildi það ekki. Sennilega var hann ekki tilbúinn til að taka það á sig ef ég hefði kennt nærveru hans um ef við hefðum tapað!“