Fjölbreytt verk á List án landamæra

Listahátíðin List án landamæra var sett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum seinni partinn í gær. Markmið hátíðarinnar er að blanda saman listafólki úr ýmsum stigum þjóðfélagsins.

Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 en eitt aðalmarkmið hennar er að skapa vettvang milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks til að auka fjölbreytileika mannlífs. Dæmi um birtingarmynd slíkrar samvinnu eru verk sem Aron Kale og Odee hafa unnið saman og eru á efri hæð Sláturhússins.

Utanumhald hátíðarinnar í ár hefur verið í höndum Ólafar Bjarkar Bragadóttur, listakennara við Menntaskólann á Egilsstöðum og nemenda hennar í samtímalistasögu. Í samtali við Austurfrétt við opnunina sagði Ólöf að slík utanumhald gæði nemendunum gott tækifæri til að kynnast því hvað til þurfi við að halda utan um listasýningu og störf við listir.

Ólöf sagði vinnu við hátíðina hafa gengið hratt, hafist var handa við verkefnið fyrir um mánuði og byrjað að hengja upp verk þegar hópurinn kom heim úr námsferð til Reykjavíkur á mánudag. Nemendurnir máluðu saman eitt verk fyrir sýninguna sem lokið var við að mála hálftíma fyrir opnunina.

Verkin sem verða til sýnis koma víða að en sýningin er haldin í samstarfi við bæði einstaklinga og hópa sem vildu taka þátt og láta ljós sitt skína. Meðal annars bárust verk frá öllum leikskólunum á Fljótsdalshéraði.

Heimsmarkmiðin og sjálfbærni voru höfð að leiðarljósi í mörgum verkanna og ekki síst hvað varðar að eyða fordómum og vinna að jafnrétti í heiminum öllum til handa. „Þessi hátíð snýst um að brjóta niður múra og blanda saman hópum,“ sagði Ólöf Björk.

Á hátíðinni má sjá fjölbreytt verk svo sem kvikmyndaverk, málverk, teiknimyndaseríur og handverk. Sýningin í Sláturhúsinu stendur út maí sem og önnur sýning á vegum Listar án landamæra sem opnuð verður á Skriðuklaustri á laugardag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar