Fjöldi kynnti sér starfsemi MVA á afmælishátíð

„Nákvæm dagsetning var 12.12 en við ákváðum að taka smá forskot á sæluna því sá dagur hentaði ekki jafn vel,“ sagði Sesselja Ásta Eysteinsdóttir, stjórnarformaður MVA, sem hélt upp á 10 ára afmælið fyrir skömmu

Af því tilefni hélt fyrirtækið opið hús í einingarverksmiðju sinni í Fellabæ og þar boðið í kökur og gotterí auk þess sem gestir gátu valsað um verksmiðjuna og fengið leiðsögn um hvernig allt innandyra virkaði. Meðal annars var hægt að kynna sér framleiðslu fyrirtækisins á einingum fyrir nýtt þjónustuhús sem rís innan tíðar við Hengifoss í Fljótsdal og á að vera komið í gagnið miðsumars.

Töluverður fjöldi fólks lagði leið sína í fyrirtækið sem er löngu orðið eitt það stærsta á Héraði og hefur mjög látið til sín taka í verktöku hvers kyns auk framleiðslunnar á húseiningum. MVA er í grunninn þrír smærri aðilar sem tóku sig saman á sínum tíma; MVA, HT Hús og Jón Arnórsson. Til að byrja með sérhæfði fyrirtækið sig í múrvinnu en fljótlega voru keypt steypumót og byggingarkrani og síðar keypti fyrirtækið einingaverksmiðjuna sem áður var rekin af VHE.

Að sögn Tómasar Braga Friðjónssonar, eins eigenda fyrirtækisins og yfirmanns framkvæmda, er staða fyrirtækisins traust og verkefnastaða framundan afar góð en verulegur skortur á verktökum hefur verið viðvarandi víða austanlands um hríð.

Gestir fengu gott í gogg á afmælinu og þröngt var á þingi enda margir áhugasamir um starfsemi MVA. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.