Fjölmennasta ganga gönguvikunnar frá upphafi

Yfir 150 manns tóku þátt í fjölskyldugöngu um Vattarnes, yst í sunnanverðum Reyðarfirði, í gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð í síðustu viku. Sú ganga er sú fjölmennasta í tólf ára sögu vikunnar.

„Ég taldi 154 gesti í þeirri göngu,“ segir Sævar Guðjónsson, einn af skipuleggjendum vikunnar. Þá er hann sjálfur ekki talinn með sem þýðir að 155 tóku þátt í göngunni á Vattarnesi á þriðjudaginn í síðustu viku.

Álíka fjöldi tók þátt í göngu um Hólmanes á fimmtudeginum. „Við vorum með 120 manns og svo bættust við 30 starfsmenn Alcoa sem voru í fjöruhreinsun.“

Í kjölfar ganganna voru kvöldvökur sem Sævar segir um 200 manns hafa mætt á. Fjölmennustu kvöldvökurnar voru hins vegar þær síðustu í vikunni haldnar á Mjóeyri með um 300 gestum.

Mikil hlýindi og frábært veður hvöttu fólk frekar til þátttöku í vikunni. „Við fengum frábært veður allt fram á síðasta klukkutíma vikunnar. Þegar við vorum að ganga frá eftir síðustu kvöldvökuna fór að rigna og snjóa í fjöll,“ segir Sævar

Hann er því ánægður með hvernig tókst til og þróun gönguvikunnar. „Þetta er þriðja árið í röð sem allt gengur upp í vikunni. Það slasast enginn, þátttakan er mjög góð og allar ferðir farnar. Ég man reyndar ekki eftir því nema einu sinni að það hafi fallið niður ferð.

Þróunin er mjög góð. Gestum fjölgar ár frá ári. Það var fullorðið fólk að koma hingað í fyrsta sinn sem sagði þetta bestu viku sem það hefði lifað.

Þeim fjölgar alltaf sem koma hingað gagngert til að vera með í vikunni. Síðan eru bara heimamenn og gestir frá Akureyri og Suðurlandi sem koma ár eftir ár. Við vorum líka með Breta sem voru að koma í sína elleftu viku. Þeir misstu bara af fyrsta árinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar