Fleiri hundruð nutu sín á Beint frá býli deginum í Fljótsdal
Allt gekk eins og í sögu á Beint frá býli deginum austanlands um liðna helgi en sá var að þessu sinni haldinn við bæinn Egilsstaði í Fljótsdal. Talið er að kringum 500 manns hafi þegið heimboð þann dag.
Beint frá býli dagurinn er haldinn árlega á einum stað í hverjum landshluta og þar hugmyndin að kynna og koma á framfæri þeim fjölda smáframleiðenda í sveitum landsins sem vinna margvíslegar vörur úr nærhéraði.
Það var og raunin að Egilsstöðum í Fljótsdal þar sem fyrirtækið Sauðagull hefur um nokkurra ára skeið framleitt matvæli úr íslenskri sauðamjólk auk þess að framleiða ís á gamla mátann úr náttúrulegum hráefnum.
Gestum gafst kostur á að skoða framleiðsluna sem og vinnslueldhúsið á staðnum og var mikill áhugi á því að sögn Ann-Marie Schlutz sem stendur að baki Sauðagulls. Jafnframt naut smáfólkið þess að fá að komast í návígi við hin ýmsu dýr á staðnum og hafði skemmtun af.
Enginn fór svangur af staðnum enda fylktu einir þrettán aðrir austfirskir smáframleiðendur liði þennan dag í samfloti við Sauðagull og buðu smakk og vörur sínar til sölu. Þar smáframleiðendur á borð við Lilju Kryddjurtir, Brauðdagar, Fiskverkun Kalla Sveins, Geitagott, Geislar Gautavík og Félagsbúið Lindarbrekku svo fáeinir séu nefndir.
Fjöldi smáframleiðenda kynnti vöruúrval sitt á sunnudaginn var og var mikil almenn gleði með daginn bæði af þeirra hálfu og gesta almennt. Mynd Oddný Anna Björnsdóttir.