Fljótsdalshérað gerist aðili að Evrópusáttmála um jafnrétti

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að sveitarfélagið gerist aðili að Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum. Var tillaga þar um samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar um miðjan janúar.

04_16_18---people-on-the-move_web.jpg

Árið 2005 hafði Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að, frumkvæði að gerð samningsins um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum. Þau unnu að honum í samstarfi við aðildarsamtök sín og með tilstyrk Evrópusambandsins. Yfir 750 sveitarfélög og héruð í 21 landi hafa undirritað sáttmálann. Undirritun felur í sér pólitíska viljayfirlýsingu um að vinna að framgangi jafnréttismála í samræmi við sáttmálann. Hún felur jafnframt í sér að sveitarfélögin verða aðilar að evrópsku tenglaneti um jafnréttismál.

Sáttmálinn spannar öll svið sveitarfélaga þar sem þörf er talinn á jafnréttisaðgerðum, frá félagsþjónustu til skipulagsmála. Hann býður upp á aðferðir fyrir sveitarfélög til að ná fram jafnrétti í reynd. Lögð er áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða á öllum stigum og sviðum og mati á áhrifum stefnumótunar og ákvörðunartöku á hvort kynið fyrir sig. Tryggja á jafnan aðgang kynjanna að ákvörðunartöku og þjónustu sem taki mið af þörfum bæði karla og kvenna. Mælt er fyrir um aðgerðir gegn staðalímyndum og fræðslu til starfsfólks. Taka á sérstaklega á margfaldri mismunun, sem fyrir utan kyn getur átt rót sína að rekja til kynþáttar, kynhneigðar, aldurs o.fl. Sveitarfélög skulu beita sér fyrir því að samstarfsaðilar þeirra virði jafnréttissjónarmið, svo sem í samningum um kaup á vörum og þjónustu og í samstarfssamningum við félagasamtök.

Sveitarfélög skulu innan tveggja ára hafa gert aðgerðaráætlun um hvernig þau muni framkvæma ákvæði samningsins. Þau hafa svigrúm til að forgangsraða markmiðum og setja sér tímaramma. Jafnréttisstofa mun aðstoða sveitarfélög við innleiðingu sáttmálans. Þau munu einnig njóta stuðnings frá Evrópusamtökum sveitarfélaga og öðrum aðildarsveitarfélögum.

Tvö sveitarfélög auk Fljótsdalshéraðs nú, Mosfellsbær og Akureyrarkaupsstaður, hafa undirritað sáttmálann.

Sáttmálinn er yfirgripsmikill og skiptist í eftirfarandi kafla:
  • Almennur rammi um jafna stöðu kvenna og karla
  • Hið pólitíska svið
  • Sveitarfélagið sem vinnuveitandi
  • Opinber innkaup og samningar
  • Sveitarfélagið sem þjónustuveitandi
  • Skipulagsmál
  • Sveitarfélagið sem eftirlitsaðili
  • Samstarf við önnur sveitarfélög innanlands og utan

Margt af því sem tiltekið er í sáttmálanum er þegar fyrir hendi í íslenskum sveitarfélögum enda bundið í lög á Íslandi en annað er nýtt og athyglisvert og skapar sóknarfæri fyrir sveitarfélögin á þessu sviði.  Í sáttmálanum er kveðið á um að þau sveitarfélög  sem undirrita hann  skuldbindi sig til að gera jafnréttisáætlun (aðgerðaáætlun) um helstu forgangsmál og hvernig þau ætli að ná árangri á þeim sviðum. 

 Unnið hefur verið eftir jafnréttisáætlun á Fljótsdalshéraði undanfarin ár. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar