Fluttu í sundur en stofnuðu hljómsveit

Soffía Björg Sveinsdóttir, íslenskukennari við Menntaskólann á Egilsstöðum, er annar helmingur tvíeykisins Winter Leaves sem á lagið Feel sem komið er í úrslit lagakeppninnar Sykurmolans á útvarpstöðinni X-inu.

„Við vorum einu sinni par en ákváðum að hætta því. Ekkert löngu eftir að við hættum saman þá stofnuðum við hljómsveitina. Við höfðum aðeins verið að semja meðan við vorum enn saman,“ segir Soffía Björg um Winter Leaves.

Hún syngur en Hannes Valur Bryndísarson leikur á gítar. Þau fá síðan til liðs við sig aðra hljóðfæraleikara eftir sem við á.

„Við skilgreinum okkur sem tilfinningarokk, þótt ég hafi enga rokkrödd. Við höfum hins vegar tilfinningarnar. Ég hef gaman af að semja texta. Sem krakki samdi ég endalaust af ljóðum. Minn tónlistarlegi bakgrunnur er lítill sem enginn, ég lærði aðeins á klarinett og gítar í tónlistarskólanum.“

Soffía, sem er alinn upp eystra, er flutt aftur austur en Hannes býr syðra. Þau vinna því saman þvert yfir landið. „Það gengur ágætlega. Við þurfum ekki að vera saman við að semja því við gerum ólíka hluti. Ég sem mínar sönglínur og texta en hann gítarlínurnar. Síðan hendum við hugmyndum á milli.“

Winter Leaves gaf út breiðskífu árið 2019. „Fram að því höfðum við fyrst og fremst samið okkur til skemmtunar. Kannski flýttum við okkur of mikið að gefa út plötu og unnum lögin ekki nóg. Nú gefum við frekar út eitt lag í einu sem við vinnum betur.“

Íslenskukennarinn sem semur á ensku

Lagið Feel er komið í úrslit Sykurmolans en þar er í gangi hlustendakosning sem stendur fram á þriðjudag. „Við leggjum mikið upp úr textunum okkar. Þeir eru margræðir. Þótt ég sé með eitthvað ákveðið í huga þá getur einhver annar tengt við allt annað. Þetta lag fjallar um að ekki er öll ást góð fyrir þig,“ útskýrir Soffía.

Það vekur samt óneitanlega athygli að íslenskukennari kjósi að semja á ensku. „Það er mun auðveldara að semja á ensku. Ég kemst upp með að nota hálfrím sem ég kæmist vart upp með á íslensku. Íslenskan getur verið dálítið íhaldssöm þótt ég sé alltaf að reyna að breyta því.

Síðan sjáum við á Spotify að langflestir hlustenda okkar koma frá Bandaríkjunum. Það er samt ekki aðalatriði, fyrst og fremst er þetta okkar tjáning og ef einhver hefur gaman af að hlusta á hana þá er það frábært.“

Átta lög keppa til úrslita í Sykurmolanum en á annað hundrað laga voru send inn í samkeppnina. „Við erum því mjög ánægð með að vera í úrslitunum,“ segir Soffía að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.