Flytja súkkulaði og kaffi frá Ekvador inn til Reyðarfjarðar

Reyðfirðingarnir Daði Páll Þorvaldsson og Lupe Alexandra Luzuriaga Calle hófu nýverið innflutningi á bæði súkkulaði og kaffi frá Ekvador, fæðingarlandi Lupe. Þau segja miklar hefðir í kringum súkkulaðið sem sé þar drukkið eins og Íslendingar drekka kaffi.

„Við Ekvadorar drekkum mikið súkkulaði. Ég er alin upp í miðjum Andes-fjöllum þar sem fjölskyldan vaknar og drekkur súkkulaði, meðan Íslendingar fá sér kaffi,“ útskýrir Lupe.

Þau segjast hafa rætt sín á milli og við vini sína um viðskiptatækifæri sem fælust í beinum innflutningi á vörum frá Ekvador til Íslands. „Okkur langaði til að leyfa Austfirðingum að njóta toppafurðar. Við vorum að ræða við vin okkar til margra ára í Ekvador, sem aðstoðar okkur í þessu, og þá allt í einu kom súkkulaðið upp í kollinn á okkur því Ekvadorar eru margverðlaunaðir fyrir besta súkkulaði í heimi,“ útskýrir Daði.

Ræktað í Amazon


Súkkulaðið kallast „El Squisito“ og 100% hreint súkkulaði. „Kakóbaunirnar eru ræktaðar í Amazon og pakkað í Andes-fjöllum. Þetta er allt innan sama fyrirtækisins sem hefur starfað í þessum geira í 50 ár.“

Þau útskýra að Ekvador henti vel til að rækta kakó. Nafn landsins er dregið af því að það liggur á Miðbaug þannig hitastigið er tiltölulega jafnt, litlar birtusveiflur og loftslagið tiltölulega rakt. „Það finnst munur á súkkulaði frá Ekvador og öðrum löndum,“ segir Lupe.

Hreint í dreifbýlinu


Súkkulaðið sem Íslendingar kaupa úti í búð er sjaldnast alveg hreint, heldur verið bætt í það sykri. Lupe útskýrir að Ekvador fái fólk sér slíkt „nammi“ frekar þegar líður á daginn. „Börnin sækja ekki í þetta súkkulaði. Ekvadorar nota annars ekki þetta súkkulaði sem við þekkjum hérlendis. 70% hreint súkkulaði finnst kannski í borgunum en ekki í dreifbýlinu.“

Súkkulaðið sem Daði og Lupe flytja inn undir merkjum Ecua Ice Flavours er gjarnan notað til drykkjar, þótt þau ítreki að hægt sé að nota það í flest, meðal annars bakstur.

Bæta við kaffi


Þau hafa hug á fleirum vörum frá Ekvador og eru byrjuð að flytja inn kaffi sem kallast Cumandá. „Þetta er gæðakaffi sem kemur nýtýnt og brennt beint til okkar. Það er ræktað á Loja, fjallasvæði í Ekvador, sem er frægt fyrir eitt besta kaffi heims í dag. Við erum með tvær tegundir, hágæðakaffi og aðra venjulegri. Kaffið er minna brennt en venjulegt kaffi út úr búð sem gerir það betra því þá haldast efnasamböndin í bauninni betra. Það gerir það um leið sérstakara,“ segir Daði.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar