„Fólk grípur pennann um leið og það veit hvað er í gangi“
Einar Hansberg Árnason er nú hálfnaður í hringferð sinni til að vekja athygli á átaki Unicef „Stöðvum feluleikinn“ þar sem barist er gegn ofbeldi á börnum á Íslandi. Einar skíðar, rær og hjólar í 36 sveitarfélögum hringinn í kringum landið og fer um Austfirði í dag.„Ég heyrði auglýsingu frá UNICEF þar sem barn kallaði eftir aðstoð. Hún snart við mér.
Ég hafði verið með þá hugmynd í höfðinu að fara hringinn með eitthvert sprell. Þegar ég kom heim settumst við hjónin yfir málin og fórum að skoða tölurnar, sem eru hræðilega. Við sendum hugmyndina á UNICEF og hingað erum við komin,“ segir Einar.
Hann ætlar að safna alls 500 kílómetrum á ferð sinni um landið og var hálfnaður með þá í gærkvöldi, 251.700 metra eftir törn á Vopnafirði sem var síðasti viðkomustaðurinn í gær. Hann fer að meðaltali 13.000 metra á hverjum stað því áætlað er að um 13.000 börn hérlendis verði fyrir ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdag sinn.
„Við tókum reyndar langan dag í gær, 80 þúsund metra því það er fjöldi barna hérlendis. Við leikum okkur með tölurnar,“ segir Einar.
Hann hóf daginn við Bónus á Egilsstöðum en ætlar að vera á Seyðisfirði klukkan 14:30, Fáskrúðsfirði 16:30 og Djúpavogi 19:00 áður en síðasti sprettur dagsins verður tekinn á Höfn. Hringferðin hófst á föstudag og tekur viku. Hann bætir reyndar við með að hlaupa heilt maraþon í Reykjavík á laugardag.
Hvatning til sveitarfélaga
Í vor hóf UNICEF á Íslandi átak gegn ofbeldi á börnum undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn. Þá vakti UNICEF athygli á því að ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Rúmlega 13 þúsund börn verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn hér á landi, samkvæmt nýjum gögnum sem voru unnin af Rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir & greining og Stígamótum. Í tölunum er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti, en þá væri talan mun hærri.
Einar og UNICEF munu heimsækja tæplega 40 sveitarfélög til að vekja athygli á hversu algengt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er og um leið hvetja sveitarfélög til að taka þátt og bregðast við ofbeldi á börnum. UNICEF bendir á að viðbrögð sveitarfélaga skipti öllu máli þar sem þau leika mikilvægt hlutverk í lífi barna og stýra stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa bein áhrif á daglegt líf þeirra. UNICEF hefur sent ákall til allra sveitarfélaga landsins um að þau taki upp heildstætt og samræmt verklag, vegna gruns um ofbeldi og vanrækslu, fyrir allar stofnanir sem starfa með börnum.
Átakinu fylgir ákall til almennings um að ganga í breiðfylkingu fólks sem tekur afstöðu gegn ofbeldi á börnum. Hægt er að skrifa undir ákallið hér. UNICEF hvetur almenning til að kynna sér málið og skrifa undir ákallið. UNICEF mun senda öllu því hugsjónafólki upplýsingar um hvernig á að bregðast við þegar grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi.
Einar segist almennt hafa fengið jákvæð viðbrögð. „Það fer aðeins eftir hversu margir eru á ferli þar sem við erum, í gær vorum við til dæmis inni á Glerártorgi á Akureyri. Ég held að fólk vilji vel en sé oft feimið við að fá að vita hvað er í gangi. Um leið og fólk veit hvað er í gangi grípur það pennann.“