
Formlegir föstudagar í Kjörbúðinni á Seyðisfirði
„Við höldum þessu áfram inn í sumarið, það er ekki spurning,“ segir Ágúst Magnússon, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Seyðisfirði um „formlega föstudaga“ sem komið hefur verið á í versluninni.
Undanfarna mánuði hefur starfsfólk Kjörbúðarinnar á Seyðisfirði mætt prúðbúið til vinnu á föstudögum og hefur uppátækið verið nefnt „formlegir föstudagar“. Hvernig fæddist hugmyndin?
„Ég veit nú ekki hvort ég á að segja það,“ segir Ágúst og hlær. „Við vorum semsagt tveir, ég og samstarfsmaður minn, að ræða að okkur þætti standart í klæðaburði hjá karlmönnum ekki nógu hár og ákváðum því daginn eftir að mæta í skyrtu og með bindi í vinnuna. Okkur þótti það svo skemmtilegt að við héldum því áfram og ákváðum að þetta yrði hefð á föstudögum. Það eru ekki bara karlmenn að vinna í Kjörbúðinni og stelpurnar hafa einnig mætt fínar, en daginn sem myndin var tekin ákvað ein þeirra að mæta einnig í skyrtu og með bindi,“ segir Ágúst.
Önnur stemmning í búðinni á föstudögum
Ágúst segir að föstudagarnir formlegu hafi vakið lukku hjá viðskiptavinum. „Viðskiptavinum þykir gaman að sjá prúðbúið fólk og þetta lífgar upp á daginn, en ég er ekki frá því að það myndist önnur stemmning í búðinni á föstudögum,“ segir Ágúst.
Ljósmynd: Ómar Bogason.