Forsetagimbrin fékk nafnið Eliza

Heimsókn hr. Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, til Fjarðabyggðar lauk í gær þegar forsetinn leit við í sauðburði á bænum Sléttu í Reyðarfirði. Nýfædd gimbur var þar nefnd eftir forsetafrúnni.

„Við enduðum á að fylgjast með sauðburði á Sléttu. Ég hélt þar á nýbornu lambi og fékk að gefa því nafn. Þetta er lífvænleg gimbur sem heitir Eliza,“ sagði Guðni í samtali við Austurfrétt í lok ferðarinnar. Lambið heitir eftir forsetafrúnni, Elizu Reid, sem ekki var með í ferð að þessu sinni.

Starfsmenn Fjarðabyggðar og forsetaembættisins héldu utan um skipulag ferðarinnar austur. Eftir því sem næst verður komist mun heimsókn í sauðburð hafa verið það sem forsetinn bað sérstaklega um. Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi og bæjarfulltrúi, hélt utan um móttökurnar á Sléttu.

„Heimsókn okkar var áður frestað vegna óviðráðanlegra orsaka. Fyrst það hittist þannig á að við vorum í miðjum sauðburði þá fannst mér tilvalið að fylgjast með. Þótt engin ær bæri meðan við vorum á Sléttu þá var mjög skemmtilegt að koma þangað. Okkur var afar vel tekið þar.“

Mynd: Jessica Auer


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.