Franskir dagar: Heiðraði afa sinn í minningarathöfn um franska sjómenn

Gestur franskra daga, frakkinn Maxime Normand, merkti leiði afa síns í franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði um helgina. Afinn lést við veiðar á Íslandsmiðum en Normand var viðstaddur minningarathöfn um franska sjómenn í franska grafreitnum á laugardaginn.


Einn af föstu liðunum í dagskrá Franskra daga er minningarathöfnin þar sem þeim sjómönnum sem hvíla í Franska grafreitnum á Fáskrúðsfirði er vottuð virðing. Gestir sem hafa sótt minningarathafnirnar í gegnum árin segja þær ætíð nokkuð tilfinningaþrungnar og að þær snerti franska gesti jafnan djúpt.

Í ár var minningarathöfnin einstök að því leiti að einn gestanna, Maxime Normand frá vinabæ Fáskrúðsfjarðar Gravelines, kom sérstaklega til að heiðra minningu afa síns. Á plötu sem Normand festi á krossinn á leiði afa síns stendur „on parlera de toi et tu seria la“ sem útleggst eitthvað á þessa leið á íslensku, „þegar við tölum um þig ertu hjá okkur“.

Auk Maxime Normand sóttu Fáskrúðsfjörð heim um helgina franski sendiherrann á Íslandi Philippe O’Quin, borgarstjóri Gravelines Bertrand Ringot, ásamt tveimur fulltrúum úr bæjarstjórn Gravelines, Valerie Genevet og Danielle Pecourt.

 

Normand kross

Normand festi plötu á krossinn á leiði afa síns.

Normand fulltruar

Viðstödd minningarathöfnina voru meðal annars bæði fulltrúar frá Fjarðabyggð og Gravelines, vinabæ Fáskrúðsfjarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar