„Fullkominn staður til þess að skapa“
Dansverkið Tide, eða Sjávarföll er verk í vinnslu sem sýnt verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á fimmtudaginn.Verkefnið er samstarfsverkefni Báru Sigfúsdóttur danshöfundar og dansara og norska tónskáldins og tónlistarmannins Eivind Lønning. Um nýtt verk er að ræða þar sem unnið er með samband dans og tónlistar á óhefðbundinn hátt.
Koma Báru og Eivind er liður í verkefni Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs sem felst í því að bjóða sviðslistafólki innlendu og erlendu að koma og vinna að verkum sínum hér á Austurlandi.
Með það að markmiði að efla faglegt umhverfi sviðslista hér á svæðinu með samvinnu heimamanna og þeirra listamanna sem hingað koma.
Unnar Geir Unnarsson, er framkvæmdastjóri Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs. „Þetta er skemmtilegt verk þar sem unnið er með hugmyndina að allar hreyfingar líkamans, allt sem við gerum er tjáning og þess vegna einhvers konar dans. Bára og Eivind eru í skýjunum með aðstöðuna og fegurð svæðisins, fullkominn staður til að skapa segja þau.“
Verkið hefst klukkan 18:00. Nánar má lesa sér til um verkið hér, á Facebooksíðu Sláturhússins.