Fóður og fjör handan við hornið
Undirbúningur Fóðurs og fjörs (Food & Fun), matarveislu á landsvísu, er á fullri siglingu. Matarhátíðin verður haldin í áttunda skipti dagana 18. til 22. mars. Matarveislur verða um land allt og matseld í höndum færustu kokka. Þá er mikið lagt í árlega og alþjóðlega keppni matreiðslumeistara, sem nýtur virðingar og þykir eftirsótt að vinna. Til dæmis vann norski matreiðslumeistarinn Geir Skeie keppnina í fyrra og sigraði svo hina virtu frönsku matreiðslukeppni Bocuse d‘Or í vetur. Sænskur matreiðslumeistari, Jonas Lundgren varð þar í öðru sæti en hann sigraði Food & Fun keppnina fyrir þremur árum. Dómarar Bocuse d‘Or hafa dæmt Food & Fun keppnina. Hótel Hérað lætur ekki sitt eftir liggja þessa daga og býður upp á glæsilegar matarveislur 20. og 21. mars.