Fyrirlestur um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki sjávar

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, heldur í kvöld opinn fyrirlestur í Neskaupstað um loftlagsbreytingar og áhrif þeirra á ástandið í sjónum.

Meðal þess sem Einar mun ræða eru áhrif á hafís, pólsjóinn að norðan, loðnuna, humarinn, síldina og makrílinn úr suðaustri.

Þrjú skip leita nú að loðnu norður af Hornströndum. Engin loðna veiddist í fyrra, í fyrsta skipti frá árinu 1963 í íslenskri lögsögu og mælingar ársins gefa ekki góð fyrirheit. Sérfræðingar segja loftslagsbreytingar meðal þess sem áhrif hafa á loðnuna og hafa kallað eftir nánari rannsóknum.

Þá var humarvertíðin í fyrra með lakara móti. Hins vegar hefur makríll undanfarinn ár leitað inn í íslenska lögsögu með hlýrri sjó.

Fyrirlesturinn hefst klukkan 19:30 í Safnahúsinu í Neskaupstað. Hann er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar