Eitt fyrsta íslenska sakamálahlaðvarpið

Í vikunni hóf göngu sína Morðcastið, íslenskt hlaðvarp um morð- og sakamál. Þáttarstjórnandi er Unnur Arna Borgþórsdóttir frá Egilsstöðum en hún er mikil áhugamanneskja um sakamál.

 
„Ég hef lengi hlustað á hlaðvörp, og þá sérstaklega um sannsögulega glæpi, og fannst það hreinlega vanta á íslensku. Eftir mikið kvabb við vinkonur um að það vanti svona á íslensku og um íslensk mál þá pantaði ég mér upptökugræjur og ákvað að keyra á þetta sjálf. Þetta er auðvitað heilmikið mál, en þetta er búið að vera alveg virkilega skemmtilegt og viðtökurnar hafa verið alveg ótrúlega góðar,“ segir Unnur Arna.

Í Morðcastinu er fjallað um íslensk og skandinavísk morð- og sakamál á aðeins léttari nótum en venjulega. „Sakamál eru vissulega ekkert grín en það er oft eins og íslensk sakamál séu sveipuð einhverri dulúð og gerist hreinlega ekki. Ísland er best í heimi og allt það, svona gerist ekki í okkar landi og svo þekkjumst við náttúrulega öll meira og minna svo þetta er oft dálítið vandmeðfarið. Raunin er hinsvegar sú að íslensk sakamál eru fjöldamörg og það er hægt að finna allt um þau á internetinu.“


Unnur segir að nýr þáttur verði gefinn út vikulega og hver verði í kringum 45 mínútna langur „Mér finnst alltaf erfitt að hlusta á þætti sem eru mjög langir en svona held ég vonandi hlustandanum spenntum allan tímann. Stefnan er svo að kynna hlustendur fyrir tveimur sakamálum í hverjum þætti, en það getur auðvitað breyst eftir umfangi þeirra mála sem við erum að skoða. Ég kem svo til með að fá annað morðáhugafólk í þáttinn til mín til að segja frá sínum uppáhalds morðum eða sakamálum.“


Aðspurð hvaðan morðáhuginn komi segir Unnur það fyrst og fremst vera forvitni „Ég hef alltaf verið mjög forvitin um allt sem er að gerast, hvað fólk er að gera, hvers vegna fólk gerir ákveðna hluti og ég ofhugsa líka flest allt í kringum mig. Ég er líka búin með BA í lögfræði þar sem refsiréttur var minn uppáhalds áfangi, og eftir það hef ég mikið legið í gömlum málum og allskonar erlendum sakamála hlaðvörpum.


Hægt verður að hlusta á Morðcastið á öllum helstu hlaðvarpsveitum, til dæmis
Spotify, Podbean, iTunes og Apple podcasts.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar