Fyrsta myndavélin frá „ömmu í Ártúni“

Stöðfirðingurinn Kristín Svanhvít Hávarðsdóttir hefur haft áhuga á ljósmyndun alla sína tíð en lét drauminn rætast og hóf fjarnám í ljósmyndun í vor.



Kristín býr með manni sínum og þremur börnum þeirra í Neskaupstað og segir ævintýraþrá sína ekki nægilega sterka til þess að hún hafi viljað rífa alla upp með rótum til þess að hún gæti farið í skóla og því var fjarnám við skólann New York Institute of Photography (www.nyip.com) í Bandaríkjunum tilvalin leið.

„Ég var líklega ekki nema tíu ára þegar ég var farin að laumast í myndavélina hans pabba en fyrstu vélina gaf amma í Ártúni mér í fermingargjöf. Ég hafði áhuga á að mynda allt og á því ansi mörg albúm frá þessum árum. Þó svo þessar myndir séu kannski ekki vel teknar þá kveikja þær á öllu og maður man ljóslifandi eftir atburðum og hlutum,“ segir Kristín.



„Macro-myndatakaheillar

Kristín fór á ljósmyndanámskeið á Eiðum hjá Erni Ragnarssyni þar sem hún lærði taka myndir og framkalla. Eftir það reyndi hún að finna frístundanámskeið en gekk illa. Hún fjárfesti í sinni fyrstu Canon-myndavél árið 2006.

„Þá mætti bakterían fyrir alvöru og ekki sjens að snúa til baka. Ég fór einnig smátt og smátt að fikta mig áfram með myndvinnslu og bæta við mig linsum. Bæði tek ég mikið af myndum á allskonar viðburðum og mannamótum. Einnig náttúrunni eins og norðurljósunum. Auk þess hef ég mikinn áhuga á öllu þessu pínulitla í náttúrunni og keypti mér „macro-linsu“ til þess að geta fangað það. Það vekur líklega áhuga nágrannanna þegar ég skríð um garðinn í náttfötunum með úðabrúsa í annarri hendinni, til þess að sprauta á köngulóarvefi, og myndavél í hinni til að reyna að ná köngulónni þegar hún skríður af stað. Ég prófaði einnig að mynda snjókorn í fyrravetur, en það er alveg æðislegt að ná rétta forminu, þá sér maður snjóinn alveg í nýju ljósi. Ég held þetta sé í fyrsta skipti á mínum fullorðinsárum sem ég hlakka til þess að það fari að snjóa.“



Námið skemmtilegt og lærdómsríkt

Það var kunningjakona Kristínar sem vakti athygli hennar á skólanum. „Það tók mig alveg tvö ár að stökkva út í djúpu laugina en ég vantreysti sjálfri mér eitthvað.

Hægt er að ljúka skólanum á 18-24 mánuðum og því ræður hver og einn nemandi sínum hraða. Námið er kaflaskipt og unnið með eitt verkefni í einu, því skilað inn og það metið. „Ef það er ekki nógu gott fáum við að vita hvað er að og vinnum það aftur. Það er sem sagt ekki hægt að komast í næsta verkefni nema kennararnir séu sáttir.“

Kristín er ánægð og segir námið skemmtilegt og lærdómsríkt. „Það er töluvert mikið lesefni og allt á ensku auðvitað, en ég er búin að læra mikið um tæknilegu atriðin á myndavélinni minni sem ég vissi ekki um. Svo tekur tíma að vinna verkefnin þannig að þetta krefst mikils skipulags en er rosalega skemmtilegt.“

Kristín segist ekki vera búin að gera það upp við sig hvað hún ætli að ljúka náminu hratt. En öðlast hún einhver réttindi að náminu loknu?

„Ég má til dæmis ekki opna stofu, enda er það ekki eitthvað sem ég stefndi að. Það er aðallega bara aukin kunnátta og reynsla sem skilar mér þá kannski auknum verkefnum en ég hef verið að taka myndir í brúðkaupum og skírnum og þess háttar. Það eru alltaf frábærir dagar og æðislegt að fólk treysti mér fyrir þeim.“

Forsíðumyndin er af snjókorni á trefli Kristínar síðastliðinn vetur. Myndin er tekin á 100mm Macro-linsu. 

Kristín Svanhvít ljósmyndari1

Flugeldasýning við Jökulsárlón í ágúst

 

Kristín Svanhvít ljósmyndari2

Við Norðfjarðarflóann í september síðastliðinn.

 

Kristín Svanhvít ljósmyndari4

Sólarupprás í Stöðvarfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar