![](/images/stories/news/2016/perlur_fljotsdalsherad_skilti_heidarendi_0016_web.jpg)
Fyrsta skiltið að perlum Fljótsdalshéraðs komið upp
Félagar í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs hjálpuðust í gærkvöldi að við að koma upp fyrsta skiltinu sem vísar á perlur Fljótsdalshéraðs þar sem gengið er upp í Heiðarenda.
Ferðafélagið hefur undanfarin ár tekið saman bækling með völdum stöðum undir yfirskriftinni perlur Fljótsdalshéraðs auk þess sem stimpilleikur hefur verið í gangi.
„Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni frá upphafi. Fyrst voru heimamenn í þessu en núna held ég að þetta verði enn vinsælla meðal ferðamanna,“ segir Hjördís Hilmarsdóttir hjá Ferðafélaginu.
Perlurnar eru 28 talsins og tvær þeirra bættust við í sumar, Strútsfoss og Magnahellir í Hafahvammagljúfrum. „Sumar perlurnar þekkja allir, eins og Snæfell og Hengifoss en þarna eru líka minna þekktir staðir.
Sumar gönguleiðirnar eru stuttar og léttar en aðrar þyngdir þannig að allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Hjördís.
Í bæklingnum má finna myndir, kort af stöðunum, upplýsingar á íslensku og ensku auk GPS hnita. Nú er bætt í og sett upp skilti við upphaf gönguleiðanna. „Það hefur stundum verið erfitt að finna perlurnar og með þessu viljum við auka upplýsingarnar um þær.“
Þá opnaði Ferðafélagið nýverið heimasíðu á www.ferdaf.is þar sem finna má GPS leiðir um perlurnar.