Fyrsta sýningin í Ormsstofu opnuð

Sýningin Jarðtenging, sem fjallar um loftslagsmál, varð í síðustu viku fyrsta sýningin til að vera opnuð í Ormsstofu, sýningarrými í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

„Við erum alltaf að hugsa um loftslagsmál í nútímasamfélaginu. Okkur langaði að gera eitthvað nýtt og ögrandi án þess að sýna viðfangsefnið bara í þunglyndislegu ljósi,“ sagði Elís Gunnarsdóttir við opnun sýningarinnar.

Elís talaði þar sem fulltrúi nemenda í Listaháskóla Íslands sem hafa unnið sýninguna í samvinnu við margmiðlunarfyrirtækið Gagarín og Landsvirkjun.

Sýningin er sett saman úr þremur gagnvirkum innsetningum. Sú fyrsta, Rof, er táknræn túlkun á hvernig maðurinn hefur raskað jafnvægi náttúrunnar. Sú önnur, Vægi, veltir upp spurningum um ábyrgð stórfyrirtækja og annarra lykilleikenda og vægi þeirra gegn einstaklingnum. Þriðja innsetningin, Samleið, fjallar um leiðir til að hægt sé að vinna saman að breytingum.

Sýningin var upphaflega opnuð í Reykjavík í maí. Ólafur Arnar Jónsson, forstöðumaður nærsamfélags hjá Landsvirkjun, sagði fyrirtækið hafa verið ánægt með hvernig til tókst og hafa viljað að sýningin lifði lengur.

Fyrirtækið hefur styrkt við sýningarrýmið Ormsstofu, sem er í gamla frystiklefanum á neðri hæð hússins þar sem áður var helsta sýningarými Sláturhússins. Í haust var lokið við gagngerar endurbætur á húsinu en Ormsstofan var þá ekki tilbúin.

Hugmyndirnar um Ormsstofu eru reyndar ekki enn fullmótaðar. Ólafur sagði við opnunina að ýmsum hugmyndum hefði verið velt upp en engar ákvarðanir liggi fyrir. Tækifærið hafi verið nýtt fyrst rýmið var á lausum til að setja upp sýningu nemanna. Hún verður opin fram á vor en á meðan verður áfram unnið að framtíðarnýtingu rýmisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.