Gallerí Kolfreyja góð búbót fyrir fjölda fólks

Í hinu glæsilega endurbyggða húsi Tanga á Fáskrúðsfirði, húsi sem upphaflega var árið 1895, er ekki aðeins að finna safn um starfsemina í húsinu fyrir áratugum síðan heldur hefur handverksfólk úr bænum komið þar upp afbragðs galleríi sem kennt er við Kolfreyju.

Aðsóknin hefur verið góð og salan nokkuð jöfn árið um kring. Að sögn Elsu Guðjónsdóttur, sem er ein af fjölmörgum sem að galleríinu standa, má innandyra finna muni eftir hátt í 30 manns úr bænum eða nágrenninu.

Allt þetta hefðbundna eins og lopavörur af ýmsu tagi og í ýmsum litum en jafnframt ýmislegt annað eins og listaverk, sængurver og eldhúsáhöld svo fátt sé nefnt.

„Við höfum verið hér meira og minna í tíu ár og það gengur bara mjög vel,“ segir Elsa. „Ég held að flestir ferðamenn í bænum geri sér ferð hér inn og margir kaupa sér eitthvað til minningar. Við búum svo vel að það eru margar hendur að framleiða vörurnar svo fáar þeirra eru eins heldur þvert á móti er mikil fjölbreytni í vöruúrvali. Þá eru margir erlendu ferðamannanna áhugasamir um hvernig við vinnum hitt og þetta svo þeir fá líka dálitla sögustund með.“

Elsa segir að þó aðsókn sé ágæt hafi það vakið athygli að salan sé nánast svipuð að sumarlagi og vetrarlagi. „Það helgast af rútuferðum hingað austur að vetrarlagi til að heimsækja Norðurljósasafnið okkar hér. Það er töluvert mikil umferð og fer vaxandi og þeir ferðamenn eyða gjarna meiru í kaup hér en fólk að sumarlagi. Sem er sannarlega góð búbót fyrir okkur allar.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.