Garnaveiki í Jökulsárhlíð

Garnaveiki er komin upp í Jökulsárhlíð. Er sýkingin bundin við tvo bæi á svæðinu, en verið að kanna hvort fé á nágrannabæjum sé einnig sýkt. Ekki þarf að aflífa sýkt fé, en þar sem sjúkdómurinn veldur ólæknandi bólgu í slímhúð garna og meðfylgjandi skituköstum veslast sýktar skepnur smám saman upp þrátt fyrir að éta nóg.

Garnaveiki leggst á sauðfé, geitur og nautgripi. Til er bóluefni við garnaveiki, en baktería veldur sjúkdómnum og dreifist með saur sýktra kinda. Er sýkingarhætta mest í þröngum högum eða húsum.

Sauðfé og geitur geta sýnt einkenni sjúkdómsins frá 1 árs aldri en nautgripir frá 2ja ára aldri. Einkennin sjást 1-2 árum eða lengur eftir sýkingu.

Til að verjast garnaveiki þarf helst að bólusetja öll ásetningslömb sem fyrst eftir að þau hafa verið valin. Getur bóluefnið oftast varið lamb ævilangt gegn garnaveiki.

Garnaveiki er nokkuð útbreidd um landið en þó hefur sumstaðar tekist að útrýma henni og annars staðar hefur hún aldrei komið upp. Þar sem lítil sem engin hætta er talin á garnaveiki, eru ásetningslömb ekki bólusett. Það á til dæmis við Austurland norðanvert.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar