Geirfuglar, Íslandsmótið í limbó og fullar frænkur

Hljómsveitin Geirfuglarnir slær upp hlöðuballi í Havarí að Karlsstöðum í Berufirði á föstudagskvöld, hinu fyrsta sem sveitin heldur á Austurlandi. Í för með sveitinni verða fleiri atrið bæði til upphitunar og niðurkælingar.

Hljómsveitin Geirfuglarnir hafa verið sjaldséð sjón í íslensku tónlistarsenunni síðustu ár, líkt og fulginn sem hún dregur nafn sitt af. „Við spilum útdauða tónlist í takt við tíðarandann,“ segir mandólínleikarinn Freyr Eyjólfsson.

Hátindi frægðarinnar náði sveitin með plötunni og samnefndum smelli „Byrjaðu í dag að elska“ árið 1999 en síðasta platan kom út 2008. Síðustu ár hefur sveitin haldið þeirri hefð að slá upp einu balli á ári sem að þessu sinni verður haldið í Berufirði.

„Við hittumst einu sinni á ári og förum yfirleitt út á land með ball. Þetta verður í fyrsta sinn sem við spilum á Austurlandi og við erum mjög spenntir fyrir því enda löngu kominn tími á að fara austur.

Margir okkar eru með sterkar taugar austur. Foreldrar mínir búa á Egilsstöðum, Andri (Geir Árnason) trommuleikari er tengdasonur Austurlands og Vernharður Jósefsson bassaleikari hefur unnið á Djúpavogi síðustu tvö ár þannig að helmingurinn af bandinu eyðir fleiri vikum á ári eystra.

Hjónin á Karlsstöðum eru spennandi ungir, íslenskir bændur og gamlir vinir sem við þekkjum úr bænum. Ég fór á ball á Karlsstöðum með FM Belfast í fyrra og síðan hef ég átt mér þann draum heitastan að halda ball þar í hlöðunni.“

Miðnes og limbó

Geirfuglarnir verða ekki hinir einu sem koma fram því með í för verða hliðarafurðir sveitarinnar, Geirfuglarnir og Miðnes. „Það verða milliatriði, upphitunar- og kæliatriði. Miðnes er rokkarmur Geirfuglanna og spilar þjóðsöng landsbyggðarinnar „Reykjavík helvíti“. Síðan verður með okkur Katla Vigdís úr Between Mountains, eitt mesta efni íslenskrar tónlistar.“

Þá munu Geirfuglarnir standa fyrir Íslandsmótinu í limbó. „Við héldum það síðast fyrir fimm árum og nú finnst okkur tími til kominn að endurtaka leikinn,“ segir Freyr sem lofar veglegum vinningum.

Hann heitir því að bandið muni halda vel utan um keppnina. „Við höfum kynnt okkur helstu reglugerðir og munum fara í ræl og polka áður en keppnin hefst því það er nauðsynlegt að hita vel upp. Þetta er jaðarsport með áhættusæknum danssporum þannig við ráðleggjum bakveikum og öldruðum að fara varlega en það verða hjúkrunarfræðingur og læknir á staðnum.“

Geirfuglarnir eru með nýja plötu í smíðum sem heita mun „Snú, snú í gröfinni.“ Fyrsta lagið af henni, „Fulla frænkan mín“ er farið að hljóma. „Það er rétt að það er um austfirska frænku sem við viljum ekki nefna, en ef rýnt er í textann eru þar lýsingar sem hver einasta ætt, fjölskylda og vinahópur kannast við. Partýið er ekki gott fyrr en fulla frænkan mætir og ég lofa að þær mæta á föstudaginn, fleiri en ein.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar