Gengu samtals 500 km á þremur stöðum í heiminum

Fjölskylda frá Vopnafirði hefur í nóvembermánuði farið samanlagt 500 kílómetra í minningargöngu til safnar áheitum til styrktar heilsugæslunni á Vopnafirði.

Það eru þau Aðalbjörn Björnsson, bræðurnir Bjartur, Tryggvi og Heiðar Aðalbjörnssynir auk sambýliskvenna þeirra, þeim Urði Steinunni Önnudóttir Sahr, Hallfríði Þóru Tryggvadóttur og Agnesi Björg Magnúsdóttur og syni Bjarts og Urðar, Úlfi Aðalbirni, sem hafa lagt kílómetrana að baki.

Þetta hafa þau gert til minningar um Öddu Tryggvadóttur, móður bræðranna og konu Aðalbjörns. Á sunnudag, 20. nóvember, voru 20 ár liðin frá því hún lést, aðeins 41 árs að aldri eftir að hafa fengið heilablóðfall.

„Nóvembermánuður er oft erfiður og við ákváðum að nota hann nú til góðra verka og minnast mömmu um leið,“ segir Bjartur.

Fjölskyldan setti sér það markmið að ná 500 km markinu þann 20. nóvember en það náðist nokkrum dögum fyrr. „Það er búið að vera mikið kapp í hópnum. Við höfum fengið þetta og hlaupið. Fólk hefur verið duglegra en ella að fara út sérstaklega sér til heilsubótar og ganga frekar til vinnu eða í búðina. Þetta hefur því stóraukið alla hreyfingu okkar,“ segir Bjartur.

Fjölskyldan skiptist í þrjá hópa. Bjartur, Aðalbjörn, Urðu og Úlfur Aðalbjörn eru á Vopnafirði, Tryggvi, Heiðar og Agnes í Reykjavík en Hallfríður Þóra í New York. „Við verum búin að safna þessum kílómetrum á þremur stöðum í heiminum.“

Hreyfiátakið er jafnframt áheitasöfnun en ágóðinn rennur til kaupa á tækjum eða bætts aðgengi á heilsugæslunni á Vopnafirði. Adda var fyrsti hjúkrunarfræðingur stöðvarinnar og starfaði þar nær allan sinn starfsaldur. „Við höfum samráð við starfsfólk heilsugæslustöðvarinnar um hvernig þessu verði best varið.“

Áheitunum og frjálsum framlögum er safnað á reikning 0178-15-380138 og kennitölu 1300355-4989. „Við höfum fengið virkilega fín viðbrögð en við vildum bíða með að birta reikningsnúmerið þar til við vorum búin að ná markmiðinu.“

Adda Tryggvadóttir. Mynd: Aðsend


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.