Gerir sig kláran til að synda frá Reyðarfirði til Eskifjarðar

Sundgarpurinn Sigurgeir Svanbergsson mun leggja í sjósund sitt til styrktar Píeta-samtökunum þennan morguninn en lagt verður í hann frá Gripöldu í Reyðarfirði og komið í land á Mjóeyrinni á Eskifirði.

Sigurgeir gerir ráð fyrir að sundið muni taka þetta tvær til fjórar klukkustundir eftir öldulagi og kuldaskilyrðum en hann er ekki bara að synda heldur og draga konu sína á kajak á eftir sér alla leiðina. Alls er þetta um sex kílómetra langt sund í heildina. Hópur fólks ætlar að taka vel mót Sigurgeir og Sóleyju þegar í land verður komið og allir hvattir til að koma á Mjóeyrina og vera með.

Sund hans nú er táknrænt eins og Austurfrétt fjallaði um fyrir skömmu en allt þetta gerir hann til styrktar Píeta-samtökunum og hægt verður að heita á hann meðan á sundinu stendur á vef samtakanna.

Sundinu sjálfu verður streymt að hluta til beint frá Sóleyju í kajaknum og reglulegar uppfærslur birtast líka á facebook-vefnum Sigurgeir syndir fyrir Píeta sem finna má hér. Hárnákvæm tímasetning á hvenær þau leggja í hann fer eftir veðri en einhvern tíma milli klukkan 10 til 12.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar