Gerir sófaborð úr vírakeflum

Matthías Haraldsson og Hafrún Pálsdóttir hafa síðustu tvö ár staðið að baki Ethic, netverslun með föt sem eru umhverfisvænni en gengur og gerist. Þau eru nú að feta sig með nýja vöru sem byggir á svipaðri hugmyndafræði, borð gerð úr vírakeflum.

„Ég segi að við séum að búa til borð úr rusli. Við notum kefli sem hafa þjónað sínum tilgangi til að flytja rafmagnskapla og stálvíra,“ segir Matthías í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Hann segist óviss um hvenær hugmyndin hafi fyrst kviknað. „Ég hef áhuga á að vinna úr við og algórythminn hjá Facebook er ekki lengi að leita mann uppi með fleiri hafi maður einu sinni skoðað síðu um slíkt. Einhvers staðar hefur auga mitt skannað svona borð.

Ég fór síðan að hugsa um þetta af alvöru í einni af verslunarferðum okkar Hafrúnar til Reykjavíkur í vor. Á heimleiðinni sé ég svona kefli úti í móa og segi við Hafrúnu: Hvernig væri að búa til borð úr svona keflum?

Þegar við renndum í hlaðið hér heima var viðskiptaáætlunin orðin klár í höfðinu á mér. Ég gat ekki beðið eftir að fara út að leita að keflum og held ég hafi verið kominn með eitt heim næsta dag. Ég byrjaði á að þrífa og pússa það í höndunum en það var ekki skilvirkt. Ég fjárfesti því í nokkrum verkfærum því ég átti engin þegar ég byrjaði.“

Mislangt að sækja keflin

Matthías frumsýndi fyrsta sófaborðið í lok júní og er afar ánægður með viðbrögðin. Hann á einnig tilbúið útiborð en fleiri eru í smíðum á mismunandi stigum þegar okkur ber að garði.

„Við getum verið með lág og lítil sófaborð og allt upp í útiborð með borðplötu sem er tveir metrar í þvermál. Við sjáum fyrir okkur að vera með ákveðnar stærðir en síðan verði hægt að panta sérstaklega stærðir sem henta inn í ákveðin rými, eða með þeirri áferð sem fólk vill.

Það er nóg til af þessum keflum í landinu en það er mislangt að sækja þau. Það getur verið vandasamt að finna ákveðnar stærðir. Ég er í samstarfi við fyrirtæki í fjórðungnum sem ég get fengið kefli hjá. Til þessa hef ég lengst farið upp í Egilsstaði eftir kefli.

Ýmist tek ég keflin í sundur þar sem ég fæ þau eða hér heima. Síðan þvæ ég báðar hliðar með háþrýstiþvotti og besta pallahreinsi sem á að vera til. Næst læt ég timbrið standa og þorna áður en ég hreinsa úr því hefti og nagla eða lem þá sem standa upp úr niður. Þeir fara illa í tækin þegar ég fer að pússa viðinn, sem er næsta skref.

Þá hefst stritið fyrir alvöru. Ég nota grófan sandpappír og baltajuðara. Smá saman minnkar grófleikinn á pappírnum og ég enda með mjög fínan pappír þannig að borðin verða silkimjúk áður en ég hreinsa þau endanlega og ryksuga. Síðan lakka ég þrjár umferðir með mismunandi gljástigum og ber á viðarvörn. Yfirleitt þarf timbrið að þorna í 6-8 tíma milli umferða þannig það líður dagur á milli. Ég lakka og pússa á víxl áður en kemur að lokastiginu sem er að setja fæturna undir.“

matthias haraldsson bord 0010 web
matthias haraldsson bord 0026 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar