Geta líklega fjármagnað framkvæmdir út þetta ár

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs sat fyrir svörum hjá Svæðisútvarpi Austurlands í dag. 
Í viðtali við Ásgrím Inga Arngrímsson kom fram að Fljótsdalshérað hefur verið að fjárfesta mikið á undanförnum árum. Þó þannig að meðvitað hafi sveitarfélagið beðið með sínar framkvæmdir fram yfir það þenslutímabil sem nú er lokið. Eiríkur sagði að við það geti verið kostir og gallar miðað við þá stöðu sem er uppi í dag. Hann segir sveitarfélagið hafa framkvæmt það allra nauðsynlegasta, eins og nýjan leikskóla. Mörg verkefni hafi beðið betri tíma í því skyni að koma í veg fyrir verkefnaskort í lok stórframkvæmda. Þar nefnir hann grunnskólann, stjórnsýsluhús, stórverkefni í gatnagerð og fleira.

Hann segir sveitarfélagið skoða þessa dagana hvernig sé hægt að fjármagna fyrirhugaðar framkvæmdir. Hann segir fjárhagsstöðu þess vera viðunandi. Meðal þess sem verið er að skoða er hversu hratt er unnt að fara í fyrirhugaðar framkvæmdir. Sérstaklega segist hann vilja skoða að leggja áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir til að stemma stigu við atvinnuleysi.

Helstu áhyggjur Eiríks snúa að því hvernig fjölskyldum reiðir af í því ástandi sem hefur skapast. Hann leggur sérstaka áherslu á að hjálpa fólki í gegnum þá óvissu sem hefur skapast með úrræðum frá félagsþjónustu, prestum og fleirum.

Bæjarstjórinn segir ágætlega ganga að fjármagna yfirstandandi framkvæmdir við Grunnskólann á Egilsstöðum. Bjartsýni ríki um að það náist að fjármagna framkvæmdir að minnsta kosti úr árið með fjármagni frá Lánasjóði sveitarfélaga. Hann segir þó ekkert vera í hendi. Hann sé þó bjartsýnn á framhaldið og jákvæðar fréttir berist frá lánasjóðnum. “Við treystum því að okkur verði tryggt fjármagn til að ljúka við þessi verkefni, ekki bara til þess að fleyta okkur áfram út þetta ár.” sagði Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs í Svæðisútvarpinu í dag.
egilsstadir_fra_fjardarheidi.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar