Gettu betur: „Markmiðið var alltaf að komast í undanúrslit"

Á föstudaginn síðastliðinn keppti Verkmenntaskóli Austurlands í undanúrslitum Gettu betur gegn Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fjölbrautaskóli Suðurlands vann eftir spennandi keppni og tryggði sér sæti í úrslitum. Þar með lauk Gettu betur vegferð VA þetta árið.

Eftir hraðaspurningar var staðan jöfn 15-15, og hnífjafnt framan af í bjölluspurningum. Í seinni hluta bjölluspurninga náði FSu smá forskoti og tryggði sér sigur með seinni vísbendingaspurningunni. VA tókst þó að svara þríþrautinni rétt og voru lokatölur því 31-26 fyrir FSu.

Lið VA skipa þau, Ágústa Vala Viðarsdóttir og tvíburarnir Geir Sigurbjörn Ómarsson og Ragnar Þórólfur Ómarsson. Þjálfari liðsins er Ingibjörg Þórðardóttir.

Ragnar segir að það hafi verið gaman að keppa í undanúrslitunum. „Það var mjög gaman en auðvitað smá súrt að tapa líka.”

Ragnar segir að stemningin í sjónvarpssalnum hafi verið mjög góð og liðið ánægt yfir því hve margir nemendur og starfsfólk mættu til að styðja þau. „Það mættu mjög margir að styðja okkur og þau stóðu sig öll frábærlega í því.”


Liðið er sátt með árangurinn segir Ragnar. „Markmiðið var alltaf að komast í undanúrslit, sem við gerðum, við stóðum okkur vel en FSu voru betri í þetta skiptið,” segir Ragnar að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar