Gleði og gaman á LungA - Myndir
Listahátíðinni LungA á Seyðisfirði lauk um helgina með stórtónleikum og uppskeruhátíð. Austurfrétt var meðal þeirra sem mættu á svæðið og fangaði stemminguna.Ríflega 100 ungmenni tóku þátt í listasmiðjum í vikunni sem urðu alls níu talsins. Afrakstur smiðjanna var síðan sýndur á uppskeruhátíð á föstudag sem breiddi úr sér um Seyðisfjörð.
Meðal þess sem mátti líta var dans, innsetningar og myndverk auk þess að hlýða á afrakstur tónlistarsmiðju. Þungamiðja uppskeruhátíðarinnar var í Herðubreið en ýmis rými voru nýtt meðal annars Gamla ríkið og húsnæði Smyril-Line.
Að uppskeruhátíðinni lokinni var blásið til stórtónleika á svæði Norðursíldar yst í bænum að sunnanverðum. Meðal þeirra sem fram komu þar voru Mammút og Hatari.
Hátíðinni lauk svo á laugardagskvöld með öðrum stórtónleikum á sama stað. Eftir því sem næst verður komist gekk skemmtanahald helgarinnar vel fyrir sig og voru tónleikarnir fjölsóttir, þrátt fyrir vætutíð.