„Góð byrjun og við viljum sjá fleiri á næsta ári“

Um síðustu helgi fór fram í fyrsta skipti Tónlistarhátíðin Köld í Neskaupstað. Fram komu ólíkir listamenn og má því segja að flestir hafi getað fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin var vel sótt og eru aðstandendur hennar ánægðir með þessa fyrstu tilraun.



Jón Hilmar annar skipuleggjandi hátíðarinnar var ánægður með þessa frumraun. „Þetta var fín byrjun. Tónleikarnir voru mjög skemmtilegir og heppnuðust bara mjög vel. Það má alltaf gera betur og það er markmiðið auðvitað.“

Hann segir að mætingin hafi verið góð en hefði auðvitað gaman að fá fleiri. Þorri þeirra sem sóttu hátíðina komu ekki langt að.

„Það var gaman að sjá fólkið úr bænum koma og skemmta sér. En þó er svo skemmtilegt fólk sem býr annars staðar á Austurlandi og ég saknaði þeirra. Hefði verið gaman að sjá þau.“

„Ég var líka glaður að sjá fólk að miðjum aldri taka á áhættu og mæta á tónleikana hans Auðar. Það er auðveldlega hægt að gefa sér það fyrirfram að tónlistin hans talaði meira til yngra fólks en það skemmtu sér allir ótrúlega vel ekki síður þeir sem eldri voru. Enda tónleikarnir frábærir.“ segir Jón Hilmar.

Vel heppnuð dagskrá
Hátíðin hófst siðastliðinn fimmtudag og þá kom fram tónlistarmaðurinn KK. Hann er einstakur tónlistarmaður sem svíkur engan. Ekki varð breyting  á því í þetta sinn  

Á föstudagskvöldinu var tónlistarmaðurinn Guðmundur R. svo heiðraður fyrir starf sitt í tónlist. Ferill hans spannar hátt í fjörtíu ár þrátt fyrir ungan aldur, en hann varð fimmtugur á dögunum. Þetta voru virkilega vel heppnaðir tónleikar þar sem aðrir tónlistarmenn voru fengnir til að syngja lög hans, allt frá hljómsveitarárum hans í SúEllen og svo til dagsins í dag.

Sjálfur hefur Guðmundur sagst vera afar ánægður með kvöldið og þakklátur fyrir heiðurinn sem honum er sýndur með þessari viðurkenningu.

Á laugardeginum var dagskráin svo brotin upp með tónlistargöngu um miðbæ Neskaupstaðar. Þar leiddi Smári Geirsson gönguna og sagði frá. Í göngunni voru svo örtónleikar. Þar sem fram kom Ína Berglind, ung og upprennandi tónlistarkona sem flutti bæði lög eftir sig og aðra. Göngunni lauk svo á Hótel Hildibrand þar sem Halldóra Malín og Jón Hilmar spiluðu fyrir göngugesti. Þetta var skemmtilegt uppbrot og viðbót við tónlistarhátíðina.

Um kvöldið sá tónlistarmaðurinn Auður um að skemmta áhorfendum. Virkilega mikil stemning myndaðist og sló Auður ekkert af og heillaði alla gesti upp úr skónum vel lögum sínum og söng. Ekki skemmdi hvað hljómsveitin á bakvið hann var vel mönnuð og góð. Það mátti sjá bros á hverju andliti eftir tónleika.

Hátíðinni lauk svo á sunnudeginum í Neskaupstaðarkirkju þar sem Jóhann G. og Magnús Þór sungu lög sinn á sinn einstaka hátt.

Það er ljóst að tónlistarhátíðin Köld er komin til að vera og fólk getur beðið spennt eftir tónleikahátíð næsta vetrar.

 

Auður var einlægur og átti salinn frá fyrstu mínútu. Mynd: Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.