„Góðum hugmyndum umsvifalaust komið í framkvæmd“
Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hóf nýstárlegt samstarf við Vopnafjarðarhrepp í vor um að taka ríkan þátt í Skapandi sumarstörfum í hreppnum. Sjaldan eða aldrei verið jafn mikið í boði fyrir ungmennin né heldur uppákomurnar fleiri.
Fjöldi ungmenna á Vopnafirði starfa fyrir Brim að sumarlagi hvort sem er í vinnsluhúsinu eða utandyra að snyrta og lagfæra. Það var meðal annars orsök þess að Brim vildi gjarnan taka þátt í Skapandi sumarstörfum með einhverjum hætti að sögn Magnúsar Þórs Róbertssonar, rekstrarstjóra Brims á Vopnafirði. Fyrirtækið löngum lagt sín lóð á vogarskálarnar í hreppnum með ýmsum hætti og heldur til dæmis úti Heilsuviku Vopnafjarðar í svipuðu samstarfi.
„Við fórum í þetta samvinnuverkefni með sveitarfélaginu og þar skiptum við hópnum, á aldrinum 16 til 18 ára, sem annars vegar starfar í vinnslunni og svo aðrir sem eru í öðrum undirverkefnum eins og að snyrta hér í kring. Þetta hefur tekist vel og verið gaman að sjá hvað krakkarnir eru hugmyndaríkir með ný verkefni sem við tökum umsvifalaust að okkur að hrinda í framkvæmd ef svo ber undir.“
Upphaflega var lagt upp með ákveðið plan að verkefnum en gert ráð fyrir góðu rúmi fyrir öllum nýjum hugmyndum sem upp gætu komið. Slíkir gjarnan kallaðir pop-up viðburðir sem ná yfir uppákomur sem aðeins eru til skamms tíma. Ein slíkra hugmynda var að koma fyrir sérstöku leiksvæði Skapandi sumarstarfa í Fiskhúsinu og það tekist svo vel að þar eru krakkar að leik og föndri lunga dagsins. Ríkir mikil ánægja með aðstöðuna og margir eyða þar löngum tíma þessi dægrin að sögn aðstandenda.
Leiksvæði Skapandi sumarstarfs Brims er opið rými þar sem börnum og ungmennum gefst kostur á að vera saman og prófa sig áfram í einu og öðru. Mynd Sara Líf Magnúsdóttir