Góður straumur á allra síðustu LungA-hátíðina

Allnokkur fjöldi fólks hefur komið sér fyrir á Seyðisfirði þennan fyrsta dag allra síðustu LungA-hátíðinnar sem þar fer fram. Veðurguðirnir leggja sitt af mörkum líka enda „bongó“ þar sem víðar á Austurlandi þennan daginn.

Eins og fram hefur komið víða er þessi þekkta hátíð Seyðfirðinga að renna sitt skeið í vikulokin eftir að hafa verið fastur liður í sumartilveru bæjarbúa frá því snemma á öldinni en um upphaf hennar má meðal annars lesa í síðasta hefti Austurgluggans.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, annar framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir undirbúning hafa gengið vel og allt komið á sinn stað þennan fyrsta dag  en hátíðin stendur fram á sunnudaginn kemur.

„Þetta gengur allt sinn góða vanagang hjá okkur og listasmiðjurnar nú sem áður fullar af skemmtilegu fólki. Svo erum við búin að opna bæði sérstaka 25 ára afmælissýningu LungA þar sem fólki gefst kostur á að sjá ýmislegt forvitnilegt frá hátíðinni gegnum árin. Við erum líka búin að opna skemmtilegt markaðstorg á sama stað og síðar í dag bætum við við einni Tattoo samkomu sem einnig verður í Herðubreið.“

Formlega dagskrá LungA má sjá hér en venjan er að það bætast gjarnan fleiri og fleiri viðburðir við svo ráðlegt er að kíkja á dagskrársíðuna oftar en einu sinni í vikunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar