Gömlu útihúsin urðu að vélaverkstæði
Í gömlu gripahúsunum á Finnsstöðum í Eiðaþinghá er núna rekið Vélaverkstæði Svans. Orðspor fyrirtækisins er gott enda leita vinnuvélaeigendur og bændur utan Austurlands þangað eftir aðstoð. Eigandinn hefur áhuga á gömlum dráttarvélum og bílum og á sér þann draum að reisa safn sem byggir á tækjum sem hann hefur gert upp.„Ég man ekki öðruvísi eftir mér en að skrúfa og byrjaði snemma að starfa við vélar og keyra,“ segir Svanur Hallbjörnsson, sem stendur að baki verkstæðinu en litið var í heimsókn þar í sjónvarpsþættinum Að austan á N4 í gærkvöldi.
Svanur er uppalinn á Finnsstöðum og lærði grunnatriðin af föður sínum sem þótti laginn viðgerðarmaður og gerði upp gömul tæki. Það áhugamál erfði Svanur.
„Ætli ég eigi ekki hátt í 60 traktora og 10-20 bíla. Það er lágmark að taka eina vél á ári og gera upp. Megnið af þessum tækjum er gangfært. Það er verið að bjarga sögunni, eða það vona ég. Draumurinn er að byggja utan um þetta og reisa hér safn.
Svanur byrjaði árið 1986 að starfa við vélaviðgerðir á verkstæði á Egilsstöðum. Síðan hefur margt breyst. „Þá var algengast að verið væri að skipta um platínur, kerti og slíkt til að fá bíla til að ganga. Maður náði þessu í upphafi, að þekkja grunnatriði mótors. Ég hef grun um að margir nútímaviðgerðarmenn séu ekki með þetta bakvið eyrað. Þetta er í bókinni en var haft í höfðinu áður fyrr.“
Það var síðan í júlí 2011 sem hann réðist að breyta gömlu útihúsinu á æskuheimilinu í vélaverkstæði. Hann eyðir þar töluverðum tíma í vinnunni en að gera upp gömlu tækin er áhugamálin. „Sumir fara á fótboltaleik og aðrir á barinn en ég nota frekar tímann hér.“
Þá er Svanur og hans fólk töluvert á ferðinni við að þjónusta vélar á svæðinu frá Öxarfirði suður í Öræfi. „Ef einhver hringir og ég þarf að kippa einhverjum góðum traktor í liðinn þá er ég farinn. Það er skemmtilegt að hitta bóndann á hans heimavelli.“