Göngufélag Suðurfjarða hreinsar fjörurnar
Félagar í Göngufélagi Suðurfjarða hafa undanfarinn áratug hreinsað fjörur í Fjarðabyggð. Göngudagskrá sumarsins er að hefjast fyrir alvöru en gönguvikan „Á fætur í Fjarðabyggð“ stendur nú yfir.Átak félagsins til að hreinsa fjörurnar hefur vakið athygli víða. Þannig fékk það í fyrrahaust einnar milljónar styrk frá umhverfisráðuneytinu og Fjarðabyggð tekur frítt á móti sorpinu. Þannig slá félagar tvær flugur í einu höggi, hreinsa umhverfið og njóta heilsubótar við útiveru.
Í vikunni leiddi félagið einn viðburða gönguvikunnar, þar sem gengið var í kringum Kolfreyjustað. Síðasta fjöruhreinsunin í bili er að baki, en farið var fimm fimmtudaga frá 30. apríl.
Fleira er síðan framundan á næstu mánuðum: „Á dagskránni er að endurmerkja gönguleiðina yfir Stuðlaheiðina og sömuleiðis kanna hvort endurmerkja þurfi að einhverju leyti gönguleið yfir Hvamms- og Víkurheiði. Svo gerum við okkur ferð upp á Halaklett frá Vattarnesinu einhvern tímann í ágúst og göngum á Digratind í september, í samstarfi við Ferðafélag Fjarðamanna.
Svo langar okkur mikið til að lagfæra umhverfið við æfingaskiltin sem við settum upp fyrir ofan Fáskrúðsfjörð síðasta sumar. Það er allt dálítið hrátt eins og er en með smá vinnu er hægt að gera bragarbót á því. Við ætlum einmitt að kanna hvort sveitarfélagið hafi áhuga á að koma til móts við okkur í því þar sem það getur kostað einhverja peninga. Svo má ekki gleyma að við ætlum að hjálpa til við að koma upp hreyfiskiltum á Stöðvarfirði einhvern tímann í sumar,“ segir Eyþór Friðbergsson, formaður félagsins.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.