Helgin: Gönguskíði henta öllum aldurshópum

„Ég myndi segja að það væri vakning fyrir gönguskíðum og við í ungmennafélaginu Þristunum viljum leggja okkar af mörkum í þeirri þróun,” segir Hildur Bergsdóttir, um gönguskíðanámskeið sem haldi verður í Selskógi um helgina.



„Námskeiðið verður haldið í samráði við Snæhéranna sem er óformlegur gönguskíðaklúbbur hér á Héraði. Við verðum í Selskógi en þar er markað spor, bæði allan stóra hringinn og svo byrjendavænan smærri hring í Mörkinni. Það er þátttakendum að kostnaðarlausu og er ætlað fyrir alla fjölskylduna, hvort heldur sem er algjöra byrjendur eða þá sem eiga grunn en vilja fríska upp á tæknina, en það eru þau Pétur Heimisson og Ólöf Ragnarsdóttir ásamt fleiri Snæhérum sjá um kennsluna. Þegar mannskapurinn verður búinn að skíða nægju sína þá látum við líða úr okkur við varðeld í skátarjórðinu, með ketilkaffi, kakó og grilluðum sykurpúðum,” segir Hildur, sem situr í stjórn Þristarins.

Hildur segir gönguskíði henta öllum aldurshópum. „Þetta er frábær og skemmtileg hreyfing og útivist þar sem hver og einn getur farið á sínum hraða og ákefð og hentar öllum aldurshópum. Við vitum einmitt að margir eiga skíði í bílskúrum og á háaloftum, eða langar að fá sér skíði og koma sér af stað en vantar grunnkennslu og hvatningu til að láta af því verða.”


Snæhérarnir spora brautina
Gönguskíðahópurinn Snæhérar hafa forgöngu að því að troða gönguskíðabrautir á Fljótsdalshéraði yfir veturinn. Brautir hafa verið troðnar á þremur stöðum: á Egilsstaðatúni, í Selskógi og á Fjarðarheiði, allt eftir snjóalögum og aðstæðum. Brautirnar eru opnar öllu gönguskíðaáhugafólki.

„Snæhérarnir eru afar duglegir við að smella í spor þegar veður og færi gefst. Kalli S. Lauritzson og Hjálmar Jóelsson eru hvað duglegastir við það og eru manna vaskastir á skíðunum.”

Um árabil hafa Snæhérar haft þann háttinn á að þegar braut er troðin er hópnum send sms-skilaboð og þannig látið vita að hægt sé að skella sér á skíðin. Hafi einhver áhuga á að vera á sms-listanum er hægt að hafa samband við Karl S. Lauritzson í síma 861-1994.

 

Byrjandanámskeið á snjóbretti

Brettafélag Fjarðabyggðar verður með byrjendanámskeið á snjóbretti í Oddsskarði um helgina. Kennt verður frá 11:00 - 13:00, bæði laugardag og sunnudag. Námskeiðið er fyrir alla krakka sem eru að byrja á brettum og jafnvel þau sem ekki eru orðin  lyftufær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar