Grískar jólakökur - dýfðar upp úr hunangssírópi.

Í jólablaði Austurgluggans sem kom út í liðinni viku voru tekin viðtöl við þrjár konur frá Austurlandi sem allar búa erlendis. Í viðtölunum voru þær spurnar hvað væri þeirra uppáhalds jólakökur frá landinu sem þær búa í. Næstu daga munum við birta uppskriftir þessum kökum. Í dag byrjum við á henni Katrínu Ósk Sigurbjörnsdóttur sem býr í Grikklandi. 

 

 

Uppáhalds kökurnar hennar Katrínar Óskar heita Melomakarona. „Þær bragðast svolítið eins og piparkökur nema þeim er dýft í hunangssíróp þegar þær eru teknar úr ofninum og söxuðum valhnetum stráð yfir. Þær eru einungis bakaðar fyrir jólin og það er gömul hefð fyrir þeim um allt Grikkland,“ segir Katrín.

Hún segir það lítið mál að deila uppskriftinni með lesendum Austurfrétta. „Ég hef prófað nokkrar uppskriftir en þetta er sú besta. Það er hefð hér í Grikklandi að baka þessar kökur fyrir jólin. Svo kemur svo góð lykt í húsið þegar maður bakar þær. Blanda af appelsínu, hunangi, kanil og negul,“ segir hún að lokum. 

 

Uppskriftin er svona:

 

Hráefni:

Fyrir sírópið

500 g vatn

800 g strásykur

150 g hunang

3 kanilstangir

3 negulnaglar

1 appelsína, skorin í tvennt

 

Fyrri blandan

400 g appelsínusafi

400 g fræ olía

180 g ólívu olía

50 g flórsykur

1/2 teskeið negulnaglar (malaðir)

2-3 teskeið kanill (malaður)

1/4 teskeið múskat

1 teskeið matarsódi

Börkur af 2 appelsínum. (Passa að nota hvítahlutann af berkinum. Bara appelsínugula. 

 

Seinni blandan 

1 kíló hveiti

200 g fínt semolína-hveiti

 

Áður en þær eru bornar fram

Hunang

Valhnetur

 

Aðferð:

 

Sírópið

Sjóðið öll hráefnin fyrir sírópið, fyrir utan hunangið, þangað til sykurinn leysist upp. Takið þá af hitanum. Hellið hunanginu svo út og hrærið þar til allt er komið saman. 

Látið sírópið kólna í þrjá til fjóra tíma. Það verður verður að vera kalt þegar kökurnar koma út úr ofninum.

Hægt er að undirbúa sírópið deginum áður. 

Kökudeigið: 

Hitið ofninn á 190°c á blæstri 

Til gera kökurnar þarf að tvær aðskildar blöndur. 

Setjið öll hráefni fyrir fyrstu blönduna í skál og hrærið saman með handþeytara. 

Í annarri skál setjið hráefnin fyrir seinni blönduna í skál  og hrærið. 

Sameinið svo báðar blöndurnar.

Hrærið mjög varlega saman, í stutta stund, hámark í tíu sekúndur.  Ef þú hrærir of lengi getur deigið skilið sig.  

Mótið kökurnar í höndum svo úr verði sporöskjulaga boltar. 3-4 cm. að lengt eða ca. 30 g. hver. Reynið að hafa kökurnar svipaðar að stærð og lögun.

Bakið í 20 – 25 mínútur eða þar til þær eru stökkar og hafa náð dökk gullnum lit. 

Um leið og kökurnar eru teknar úr ofninum er þeim dýpt í hunangssírópið í 10 sekúndur. 

Látið leka af kökunum á grind.

Hellið hunangi og söxuðum valhnetum yfir kökurnar. 

Hafa skal í huga:

Passið að ofhræra ekki og vinna deigið ekki of mikið því þá getur olían lekið úr kökunum og þær verða ekki stökkar. Appelsínan sem notuð er í sírópið ætti að vera heil, skorin í tvennt. 

 

Melomakaronakökurnar bakaðar af Katrínu Ósk.    Mynd: Katrín.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar